Körfubolti

Ægir Þór fyrstur Íslendinga til að ná 30-10 tvennu í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson, 18 ára leikstjórnandi Fjölnisliðsins.
Ægir Þór Steinarsson, 18 ára leikstjórnandi Fjölnisliðsins. Mynd/Valli

Ægir Þór Steinarsson, 18 ára leikstjórnandi Fjölnisliðsins, átti frábæran leik með liði sínu í óvæntum 111-109 sigri á Grindavík í framlengdum leik í Röstinni í Grindavík í Iceland Express deild karla í körfubolta í gærkvöldi.

Ægir Þór var með 33 stig og 13 stoðsendingar í leiknum og stýrði hinu unga liði til mikilvægs sigurs í neðri hluta deildarinnar. Ægir var auk þess með 6 fráköst og 3 stolna bolta og fékk 35 í framlagi fyrir frammistöðu sína.

Þrettánda stoðsending Ægis í leiknum var þegar Tómas Heiðar Tómasson skoraði sigurkörfu leiksins á lokasekúndunum en enginn leikmaður í deildinni hefur náð að gefa fleiri stoðsendingar i einum leik á þessu tímabili.

Ægir Þór er jafnframt aðeins þriðji leikmaður Iceland Express deild karla sem nær 30-10 tvennu í stigum og stoðsendingum í vetur og sá fyrsti af íslenskum leikmönnum deildarinnar.

Stjörnumaðurinn Justin Shouse var með 38 stig og 11 stoðsendingar í tapleik á móti Tindastól og KR-ingurinn Semaj Inge var með 30 stig og 11 stoðsendingar í sigri á móti Tindastól.

Ægir Þór lék allar 45 mínúturnar í leiknum en hann hitti úr 12 af 27 skotum sínum þar af 6 af 11 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×