Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á þingflokksfundi Samfylkingarinnar í febrúar 2008 að ekki mætti tala hátt um ástandið á fjármálamörkuðum. Bankarnir myndu lenda í vandræðum eftir um níu mánuði.
"Bankarnir munu standa af sér a.m.k næstu 9 mánuði en spurningin hvað ríkið getur gert hafi markaði ekki opnast þá. Því þarf að svara," segir Ingibjörg Sólrún 11. febrúar í fundargerðinni sem Björgvin G. Sigurðsson lætur fylgja með í andmælabréfi sínu til rannsóknarnefndarinnar.
Þar reyndist Ingibjörg sannspá því bankarnir hrundu eins og kunnugt er tæpum níu mánuðum síðar.
Ingibjörg segir á öðrum þingflokksfundi þann 18. febrúar:
"Stöðuna á fjármálamörkuðum þarf að taka alvarlega og menn þurfa að passa sig á að tala ekki óvarlega því slíkt tal getur verið skaðlegt berist það út. Aðilar á markaði vilja helst ekki að talað sé hátt um þessi mál."
Ingibjörg bætir við að styrkja þurfi gjaldeyrisvaraforðann. En best sé að gera það "án þess að mikið beri á."