Körfubolti

Haukakonur unnu auðveldan sigur á Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íris Sverrisdóttir var stigahæst á móti sínum gömlu félögum.
Íris Sverrisdóttir var stigahæst á móti sínum gömlu félögum. Mynd/Anton
Haukakonur létu ekki fjarveru þjálfarans, Hennings Henningssonar, hafa áhrif á sig þegar þær unnu sinn annan leik í röð í Iceland Express deild kvenna á Ásvöllum í dag. Haukar unnu þá 24 stiga sigur á Grindavík, 60-36, og eru eins og er á toppi deildarinnar. Umferðin klárast síðan seinna í dag.

Haukar unnu 65-64 sigur á Íslandsmeisturum KR á sama stað fyrir nokkrum dögum og byrja því deildarkeppnina á tveimur góðum sigrum. Haukaliðið var 14-8 yfir eftir fyrsta leikhluta og tólf stigum yfir í hálfleik, 33-21. Fyrir lokaleikhlutann var staðan orðin 44-25 Haukum í vil og sigur Hauka nánast í höfn.

Stigaskor Haukaliðsins dreifðist vel í dag en Íris Sverrisdóttir og Ragna Margrét Byrnjarsdóttir voru stigahæstar með 10 stig. Íris var þarna að mæta sínum gömlu félögum í Grindavík. Charmaine Clark var langatkvæðamest hjá Grindavík með 16 stig en Harpa Hallgrímsdóttir tók 12 fráköst auk þess að skora 6 stig.

Davíð Ásgrímsson, aðstoðarþjálfari Hennings, stjórnaði Haukaliðinu í dag þar sem að Henning var staddur erlendis. Davíð átti afmæli í dag og fékk flottan sigur í afmælisgjöf frá stelpunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×