Rannsóknarnefnd Alþingis telur að eigendur allra stóru bankanna þriggja og
Straums-Burðaráss hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá þessum
bönkum að því er virðist í krafti eignarhalds síns.
„Þegar þrengja fór að bönkunum eftir því sem leið á haustið 2007 og árið 2008 virðast mörkin milli hagsmuna bankanna og hagsmuna stærstu hluthafa þeirra oft hafa verið óskýr og bankarnir lagt meira í það að styðja við eigendur sína en eðlilegt getur talist.
Rannsóknarnefndin telur að rekstur íslensku bankanna hafi um margt einkennst af því að hámarka hag stærri hluthafanna sem héldu um stjórnartauma bankanna fremur en að reka trausta banka með hagsmuni allra hluthafa að leiðarljósi og sýna tilhlýðilega ábyrgð gagnvart kröfuhöfum.