Breiðablik vann 4-0 sigur á KR í Pepsi-deild kvenna í kvöld en leiknum var flýtt vegna þátttöku Breiðabliksliðsins í Evrópukeppninni.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir komu Breiðabliki í 2-0 í fyrri hálfleik og Fanndís Friðriksdóttir bætti við tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleik.
Þetta voru langþráð mörk hjá Fanndísi sem hafði ekki skorað síðan hún skoraði fyrsta mark Blika í sumar í 3-1 sigri á Fylki 13. maí. Síðan hafði hún leikið níu deilda og bikarleiki í röð án þess að skora.
Breiðablik fór upp í 3. sæti deildarinnar með þessum sigri með 20 stig úr 11 leikjum en Valsliðið er á toppnum með 26 stig eftir tíu leiki.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af netmiðlinum fótbolta.net.
