Körfubolti

Friðrik: Vantar meiri töffaraskap í okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Daníel

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, bíður spenntur eftir því að fá Snæfell í heimsókn í kvöld þó svo hann hefði kosið annan andstæðing í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Þetta er enginn óskamótherji í átta liða úrslitum. Við vitum samt að ef við ætlum að taka skrefið alla leið og verða Íslandsmeistarar þá verðum við að fara í gegnum lið sem er jafn sterkt og Snæfell. Við bíðum spenntir eftir að taka á þeim. Við lentum á móti þeim í bikarúrslitum þar sem þeir stóðu uppi sem sigurvegarar. Þetta er kjörið tækifæri til þess að kvitta fyrir það tap," sagði Friðrik.

Menn velta mikið fyrir sér sálarástandi liðsins. Það tapaði í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra, bikarúrslitum í ár og síðan gegn ÍR um daginn í leik sem var hálfgerður úrslitaleikur fyrir þá. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að Grindavík gengur illa að vinna úrslitaleiki.

„Hausinn á mönnum er allt í lagi. Það vantar á köflum töffaraskap í okkur. Að vera pínulítið hrokafyllri á stundum. Þar virðist oft skilja á milli okkar og þeirra liða sem taka titlana. Við erum alltaf að þokast nær og erum komnir í þá aðstöðu að spila um flesta titlana. Okkur vantar að brjóta ísinn, að taka stóran titil og það kemur vonandi núna," sagði Fríðrik ákveðinn en var ekki vont upp á framhaldið að gera að tapa leiknum gegn ÍR?

„Á því augnabliki var ég alveg brjálaður að hafa tapað. Í dag er ég sáttur við að hafa fengið löðrung fyrir úrslitakeppnina. Maður verður að horfa á það jákvæða. Mannskapurinn veit núna að það þarf að hafa verulega fyrir hlutunum. Sá leikur var þörf áminning."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×