Tónleikarnir Einar Már Jónsson skrifar 3. febrúar 2010 06:00 Sú virðist vera bjargföst sannfæring franskra kvikmyndagagnrýnenda, að kvikmyndir eigi að fjalla um ungt fólk, helst unglinga sem góna út í loftið, segja öðru hverju einsatkvæðisorð og hlæja þess á milli innsogshlátrinum; það sé í rauninni eina verðuga verkefni kvikmyndahöfunda. Þegar þeir túlka einhverja mynd líta þeir því gjarnan svo á að yngsta persónan hljóti að vera í miðpunktinum, um hana snúist allt annað. Þannig skildu þeir „Hafið" eftir Baltasar Kormák svo að sú mynd fjallaði um ungan Íslending sem býr í París og ferð hans á heimaslóðir, annað virtist fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim. Ef kvikmynd snýst ekki um unglinga taka þeir henni oft fálega, ef þeir rífa hana þá ekki í tætlur. En franskir kvikmyndaáhorfendur virðast ekki alltaf vera á sama máli, þeir álíta að fleira sé á dagskrá í veröldinni en unglingavandamálið eitt, og hefur það komið allrækilega í ljós nú í vetur. Nokkru fyrir jól var frumsýnd frönsk mynd eftir Radu Mihaileanu, sem nefndist „Tónleikarnir"; þar komu unglingar ekkert við sögu og hunsuðu gagnrýnendur hana, en þrátt fyrir það sló hún þegar í gegn svo um munaði, og hefur æ síðan verið ofarlega á listanum yfir þær myndir sem mest eru sóttar. Eftir tíu vikur var tala áhorfenda komin upp í 1,7 milljónir. En ekki er um að villast að viðfangsefnið er gripið út úr samtímanum þótt um það sé fjallað í skáldlegum ýkjustíl. Þar segir frá rússneskum hljómsveitarstjóra sem var rekinn úr starfi á stjórnartímum Bresnéfs, því að hann neitaði að reka einleikara sem var gyðingur. Hljómsveitarstjórinn var að vísu enginn sérstakur vinur gyðinga sem slíkra, en einleikarinn, ung kona sem var fiðlusnillingur og átti að leika fiðlukonsert Tsjækofskís, var stjarna hljómsveitarinnar. Skömmu síðar var hún send í útlegð í gúlagið og lést þar. Síðan hefur hljómsveitarstjórinn orðið að láta sér lynda að vera ræstingamaður í Bolsjoj. En einn góðan veðurdag rekst hann á fax nýskroppið út úr faxvél í skrifstofu leikhússtjórans þar sem hljómsveitinni er boðið að halda tónleika í Chatelet í París, og sér þá leik á borði: hann stelur faxinu, svarar því sjálfur og tekur boðinu í sínu nafni. Svo fer hann að safna saman tónlistarmönnum af öllu tagi sem eru í svipaðri stöðu og hann sjálfur og harla litríkur söfnuður og undirbúa tónleikaferðina til Parísar. Mörg ljón eru á veginum, það vantar peninga og því þarf að fá einn ólígarkinn til að gerast „sponsor"; svo er erfitt að fá pappíra til að komast úr landi, en um það sér rússneska mafían. Jafnframt er hljómsveitarstjórinn fyrrverandi og tilvonandi í stöðugu sambandi við leikhússtjórann í París og gerir ýmsar kröfur, m.a. vill hann fá unga, franska konu sem þegar er orðin víðfræg fyrir fiðluleik til að vera einleikari. Hún er treg en fellst þó á það að lokum. Ferðin til Parísar er öll hin spaugilegasta, mafían ræður ríkjum á flugvellinum í Moskvu, Rússarnir drekka eins og svampar á leiðinni, og þegar þeir þurfa að tala frönsku er hún í meira lagi bjöguð, þeir gæta þess t.d. ekki að ýmis klassísk orð hafa gróflega breytt um merkingu í nútímamáli. Rússneskur ólígark birtist og heimtar að fá að útvarpa tónleikunum, reyndar hafði frönsk útvarpsstöð réttinn, en ólígarkinn hefur í hótunum og býst m.a. til að skrúfa fyrir allt rússneska gasið. Franska einleikaranum líst ekki á blikuna, en svo hefjast tónleikarnir fyrir fullu húsi í Chatelet; leikinn er fiðlukonsert Tsjækofskís, og í byrjun heyrast feilnótur hér og þar, en svo verður eins konar kraftaverk, tónleikarnir takast frábærlega vel og verða upphafið að sigurför þessara forkostulegu tónlistarmanna. Í lokin kemur í ljós að franski fiðluleikarinn var í rauninni dóttir fiðluleikarans sem lést í útlegðinni, hafði henni verið smyglað úr landi í frumbernsku. Með því að leika konsert Tsjækofskís var hún því að finna aftur sinn eigin uppruna, og taka upp þráðinn á ný. Þegar ég sá myndina var klappað í lokin, en ég heyrði þau orð falla meðal áhorfenda, að kannske væri nýstárlegasti þátturinn lýsingin á óligörkunum. Þeir keppast um það hver geti haldið sem fjölmennastar og glæstastar veislur, og hefur kona hljómsveitarstjórans það starf að ráða fólk gegn smávægilegri borgun að sitja við borðin og fylla salarkynnin. Það er í einni slíkri hátíð sem hljómsveitarstjórinn finnur sinn „sponsor", en sú mynd sem dregin er upp af ólígörkunum í leiðinni, ruddaskap þeirra og stórmennskubrjálæði, er óborganleg. En hana ættu íslenskir kvikmyndagerðarmenn að skoða vandlega, kannske fengju þeir þar innblástur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Vertu réttu megin við línuna Benedikta Guðrún Svavarsdóttir Skoðun Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun Gaslýsum almenning Elínrós Erlingsdóttir Skoðun Hinir vondu fjármagnseigendur! Guðmundur Ragnarsson Skoðun Hægriflokkarnir boða ójöfnuð fyrir íslenska skóla Dagbjört Hákonardóttir Skoðun Er húsið tómt? Bjarni Benediktsson Skoðun „Að ganga á bak orða sinna“ – Hvað þýðir það eiginlega? Ragnheiður Stephensen Skoðun Lágir vextir og gott veður með draumsýn Viðreisnar um inngöngu í ESB? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Vanræksla á skyldum gagnvart öldruðum og sóun á skattfé Markús Ingólfur Eiríksson Skoðun
Sú virðist vera bjargföst sannfæring franskra kvikmyndagagnrýnenda, að kvikmyndir eigi að fjalla um ungt fólk, helst unglinga sem góna út í loftið, segja öðru hverju einsatkvæðisorð og hlæja þess á milli innsogshlátrinum; það sé í rauninni eina verðuga verkefni kvikmyndahöfunda. Þegar þeir túlka einhverja mynd líta þeir því gjarnan svo á að yngsta persónan hljóti að vera í miðpunktinum, um hana snúist allt annað. Þannig skildu þeir „Hafið" eftir Baltasar Kormák svo að sú mynd fjallaði um ungan Íslending sem býr í París og ferð hans á heimaslóðir, annað virtist fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim. Ef kvikmynd snýst ekki um unglinga taka þeir henni oft fálega, ef þeir rífa hana þá ekki í tætlur. En franskir kvikmyndaáhorfendur virðast ekki alltaf vera á sama máli, þeir álíta að fleira sé á dagskrá í veröldinni en unglingavandamálið eitt, og hefur það komið allrækilega í ljós nú í vetur. Nokkru fyrir jól var frumsýnd frönsk mynd eftir Radu Mihaileanu, sem nefndist „Tónleikarnir"; þar komu unglingar ekkert við sögu og hunsuðu gagnrýnendur hana, en þrátt fyrir það sló hún þegar í gegn svo um munaði, og hefur æ síðan verið ofarlega á listanum yfir þær myndir sem mest eru sóttar. Eftir tíu vikur var tala áhorfenda komin upp í 1,7 milljónir. En ekki er um að villast að viðfangsefnið er gripið út úr samtímanum þótt um það sé fjallað í skáldlegum ýkjustíl. Þar segir frá rússneskum hljómsveitarstjóra sem var rekinn úr starfi á stjórnartímum Bresnéfs, því að hann neitaði að reka einleikara sem var gyðingur. Hljómsveitarstjórinn var að vísu enginn sérstakur vinur gyðinga sem slíkra, en einleikarinn, ung kona sem var fiðlusnillingur og átti að leika fiðlukonsert Tsjækofskís, var stjarna hljómsveitarinnar. Skömmu síðar var hún send í útlegð í gúlagið og lést þar. Síðan hefur hljómsveitarstjórinn orðið að láta sér lynda að vera ræstingamaður í Bolsjoj. En einn góðan veðurdag rekst hann á fax nýskroppið út úr faxvél í skrifstofu leikhússtjórans þar sem hljómsveitinni er boðið að halda tónleika í Chatelet í París, og sér þá leik á borði: hann stelur faxinu, svarar því sjálfur og tekur boðinu í sínu nafni. Svo fer hann að safna saman tónlistarmönnum af öllu tagi sem eru í svipaðri stöðu og hann sjálfur og harla litríkur söfnuður og undirbúa tónleikaferðina til Parísar. Mörg ljón eru á veginum, það vantar peninga og því þarf að fá einn ólígarkinn til að gerast „sponsor"; svo er erfitt að fá pappíra til að komast úr landi, en um það sér rússneska mafían. Jafnframt er hljómsveitarstjórinn fyrrverandi og tilvonandi í stöðugu sambandi við leikhússtjórann í París og gerir ýmsar kröfur, m.a. vill hann fá unga, franska konu sem þegar er orðin víðfræg fyrir fiðluleik til að vera einleikari. Hún er treg en fellst þó á það að lokum. Ferðin til Parísar er öll hin spaugilegasta, mafían ræður ríkjum á flugvellinum í Moskvu, Rússarnir drekka eins og svampar á leiðinni, og þegar þeir þurfa að tala frönsku er hún í meira lagi bjöguð, þeir gæta þess t.d. ekki að ýmis klassísk orð hafa gróflega breytt um merkingu í nútímamáli. Rússneskur ólígark birtist og heimtar að fá að útvarpa tónleikunum, reyndar hafði frönsk útvarpsstöð réttinn, en ólígarkinn hefur í hótunum og býst m.a. til að skrúfa fyrir allt rússneska gasið. Franska einleikaranum líst ekki á blikuna, en svo hefjast tónleikarnir fyrir fullu húsi í Chatelet; leikinn er fiðlukonsert Tsjækofskís, og í byrjun heyrast feilnótur hér og þar, en svo verður eins konar kraftaverk, tónleikarnir takast frábærlega vel og verða upphafið að sigurför þessara forkostulegu tónlistarmanna. Í lokin kemur í ljós að franski fiðluleikarinn var í rauninni dóttir fiðluleikarans sem lést í útlegðinni, hafði henni verið smyglað úr landi í frumbernsku. Með því að leika konsert Tsjækofskís var hún því að finna aftur sinn eigin uppruna, og taka upp þráðinn á ný. Þegar ég sá myndina var klappað í lokin, en ég heyrði þau orð falla meðal áhorfenda, að kannske væri nýstárlegasti þátturinn lýsingin á óligörkunum. Þeir keppast um það hver geti haldið sem fjölmennastar og glæstastar veislur, og hefur kona hljómsveitarstjórans það starf að ráða fólk gegn smávægilegri borgun að sitja við borðin og fylla salarkynnin. Það er í einni slíkri hátíð sem hljómsveitarstjórinn finnur sinn „sponsor", en sú mynd sem dregin er upp af ólígörkunum í leiðinni, ruddaskap þeirra og stórmennskubrjálæði, er óborganleg. En hana ættu íslenskir kvikmyndagerðarmenn að skoða vandlega, kannske fengju þeir þar innblástur.
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun
Lágir vextir og gott veður með draumsýn Viðreisnar um inngöngu í ESB? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun
Lágir vextir og gott veður með draumsýn Viðreisnar um inngöngu í ESB? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun