Sigríður Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir eðlilegar skýringar liggja að baki tugmilljónastyrk sem lagður var inn á reikning Sambands ungra Sjálfstæðismanna.
Vísir greindi frá því í gær að styrkir frá Landsbankanum og Kaupþingi upp á rúmar 40 milljónir hefðu verið lagðir inn á reikning Sambands ungra Sjálfstæðismanna á árunum 2005 til 2007. Þetta kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Hvorki Borgar Þór Einarsson, þáverandi formaður hreyfingarinnar, eða Þórlindur Kjartansson sem tók við af Borgari könnuðust við málið. Þeir sögðu félagið á þessum tíma hafa verið rekið fyrir klink.
Vísir sendi fyrirspurn til Valhallar vegna málsins og fékk það svar frá Sigríði Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa flokksins, að "Samkvæmt upplýsingum okkar voru umræddir styrkir ekki lagðar inn á reikninga SUS heldur á reikning Sjálfstæðisflokksins enda ætlaðir honum. Þessar greiðslur er ekki að finna á bankareikningi SUS."
Samkvæmt upplýsingum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur birt um framlög fyrirtækja til flokksins passa þær upplýsingar við þær upphæðir sem lagðar voru inn á reikning SUS samkvæmt rannsóknarskýrslunni.
Sigríður bendir jafnframt á að skýrsluhöfundar notist við upplýsingar sem þeir fengu beint frá Landsbankanum en flokkurinn hafi ekki vitneskju um hvernig þær upplýsingar voru teknar saman.
Segja styrki á SUS reikning eðlilegan
Tengdar fréttir
SUS: Vissu ekki um tugmilljónastyrk
Styrkir upp á tæpar 40 milljónir frá Landsbankum og Kaupþingi voru lagðir inn á reikning Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Tveir fyrrverandi formenn hreyfingarinnar segjast koma af fjöllum. Félagið hafi verið rekið fyrir klink.