Körfubolti

Guðjón Skúlason: Mikið afrek að koma hingað og vinna tvisvar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Vilhelm
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var kátur eftir að hans menn slógu nágrannana í Njarðvík út úr úrslitakeppninni með 89-83 sigri í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflavík vann þar með undanúrslitaeinvígi liðanna 3-1 og er komið í lokaúrslitin á móti annaðhvort KR eða Snæfell.

„Það er meiriháttar afrek að slá út Njarðvík og sérstaklega að vinna þá tvisvar hérna inn í Njarðvík. Þetta er rosalegur heimavöllur og þeir eru með gott og vel þjálfað lið. Það er því mikið afrek að koma hingað og vinna tvisvar," sagði Guðjón Skúlason í viðtali við Guðjón Guðmundsson, í útsendingu Stöð 2 Sport.

Draelon Burns innsiglaði sigur Keflavíkur með þriggja stiga körfu af Njarðvíkurmerkinu eða langt fyrir utan, þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum.

„Svona boltar slökkva oft í leikjum og þessi karfa hans kom á frábærum tíma," sagði Guðjón.

„Ég er svo stoltur af mínum mönnum því við héldum áfram allan leikinn og spiluðum hörkuvörn. Við vorum líka að leysa sóknarlega hluti sem við vorum í vandræðum með síðast. Ég er mjög ánægður og stoltur af mínu liði," sagði Guðjón en er hann með lið sem getur farið alla leið.

„Algjörlega. Ég er komin í úrslitin og nú er bara að fara alla leið. Ég er sannarlega með lið sem getur farið alla leið. Það er bara að halda mönnum við efnið," sagði Guðjón að lokum í viðtali við nafna sinn eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×