Körfubolti

Snæfell getur orðið deildarmeistari í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfell vann fyrsta titil tímabilsins.
Snæfell vann fyrsta titil tímabilsins. Mynd/Daníel
Snæfell getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld verði úrslit kvöldsins þeim hagstæð. Vinni Snæfell sigur á Hamar í Hólminum á sama tíma og KR tapar sínum leik á móti ÍR í Seljaskóla þá fer deildarmeistaratitilinn á loft í Fjárhúsinu.

Nái KR-ingar fleiri eða jafnmörgum stigum og Snæfell í kvöld þá tryggja þeir sér úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn við Snæfell í DHL-höllinni á fimmtudagskvöldið. KR þarf að vinna með leikinn á fimmtudaginn með meira en fjórtán stigum haldi Snæfell enn tveggja stiga forskoti eftir leiki kvöldsins því Snæfell vann fyrri leik liðanna 94-80 í Hólminum í desember.

KR hefur unnið deildarmeistaratitilinn undanfarin tvö tímabil en Snæfell varð deildarmeistari í fyrsta og eina skiptið árið 2004 eða fyrir sjö árum síðan. Liðið endaði í 6. sæti í deildinni þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. 

Grindavík getur náð Snæfelli að stigum en á samt ekki möguleika á að vinna deildarmeistaratitilinn þar sem Snæfell vann báða innbyrðisleiki liðanna í vetur. Grindavík getur hinsvegar komist upp fyrir KR á innbyrðisleikjum verði þau jöfn að stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×