Handbolti

Verður krökkunum hans Baldurs bongó bannað að tromma í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonur geta orðið Íslandsmeistarar í kvöld.
Valskonur geta orðið Íslandsmeistarar í kvöld. Mynd/Vilhelm
Baldur Orri Rafnsson, tónlistarkennari í Grundarfirði, betur þekktur sem „Baldur bongó“, hefur boðað komu sína á þriðja leik Vals og Fram um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild kvenna í handbolta. Leikurinn hefst klukkan 19.30 í kvöld  í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda og með sigri tryggir Valur sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

Í frétt á mbl.is kemur fram að Baldur bongó ætli að mæta með 30 nemendur sína úr tónlistaskólanum í Grundarfirði og ætli hópurinn að skemmta sér og öðrum á meðal leik stendur. „Það verða nærri 30 blásarar og trommarar með mér í för og því útlit fyrir mikið stuð í Vodafonehöllinni,“ segir Baldur í viðtali á mbl.is.

Það er þó óvíst hvort þessi stuðningssveit Valsliðsins sé lögleg. Samkvæmt handbók HSÍ um framkvæmd leikja er aðeins leyfð ein tromma á hvort lið.

Baldur er fyrir löngu orðinn þekktur fyrir taktvissan áslátt sinn á leikjum Vals en nú á eftir að koma í ljós hvort nemendur hans fá leyfi til að slá taktinn með honum á leiknum í kvöld. Það er því spurning um hvað eftirlitsmaður leiksins og HSÍ geri fyrst þessar upplýsingar liggi nú allar fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×