Sport

Djokovic komst í undanúrslit án þess að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Novak Djokovic er kominn í undanúrslit á Roland Garros.
Novak Djokovic er kominn í undanúrslit á Roland Garros. Nordic Photos / AFP
Novak Djokovic, sem enn hefur ekki tapað tennisviðureign á árinu, er kominn áfram í undanúrslitin á opna franska meistaramótinu vegna þess að andstæðingur hans í fjórðungsúrslitunum dró sig úr leik vegna meiðsla.

Ítalinn Fabio Fognini meiddist í viðureign sinni gegn Albert Montanes frá Spáni í 16-manna úrslitunum í gær en komst engu að síður áfram. Hann varð hins vegar að játa sig sigraðan í morgun og tilkynnti að hann gæti ekki spilað við Djokovic vegna meiðslanna.

Nú þegar seinni vikan er hafin á mótinu er farið að draga til tíðinda. Allir helstu keppendur í karlaflokki eru enn á meðal þátttakenda en keppni í fjórðungsúrslitunum hefst á morgun.

Djokovic fær því dýrmæta hvíld en líklegt er að hann muni mæta Roger Federer frá Sviss í undanúrslitum síðar í vikunni. Federer á þó enn eftir að keppa í fjórðungsúrslitunum.

Það hefur verið talsvert meira um óvænt úrslit í einliðaleik kvenna. Þrír sterkustu leikmenn mótsins, samkvæmt styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins, eru allir fallnir úr leik. Þetta eru þær Caroline Wozniacki frá Danmörku, Kim Clijsters frá Belgíu og hin rússneska Vera Zvonareva.

Williams-systurnar, þær Serena og Venus, keppa ekki á mótinu vegna meiðsla en þekktasti keppandinn sem er enn að keppa er líklega Maria Sharapova frá Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×