Sport

Sigur hjá Serenu eftir árs fjarveru

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Serena Williams mundar forhöndina í leiknum í dag
Serena Williams mundar forhöndina í leiknum í dag Mynd/Getty Images
Serena Williams sneri aftur á tennisvöllinn í dag eftir 12 mánaða fjarveru frá íþróttinni. Hún sigraði hina búlgörsku Tsvetana Pironkova í þremur settum í Eastbourne mótinu á Englandi í dag.

Serena hefur ekki spilað mótsleik síðan hún sigraði á Wimbledon-mótinu síðasta sumar. Hún varð fyrir því óláni að stíga á glerbrot á veitingahúsi síðastliðið sumar. Hún skar sig illa á fæti, svo illa að hún þurfti tvisvar að gangast undir uppskurð á fætinum.

Serena, sem unnið hefur 13 risamót á ferlinum, lenti í miklu basli í leiknum í dag. Hún lenti 5-0 undir í fyrsta setti sem hún tapaði 6-1. Reynsla hennar kom sér þó vel því hún vann sig smátt og smátt inn í leikinn og sigraði að lokum 1-6, 6-3 og 6-4. Venus Williams, eldri systir Serenu, vann einnig sinn leik í 1. umferð í gær.

Eastbourne mótið fer fram á grasi líkt og Wimbledon mótið sem hefst næstkomandi mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×