Í dag eru liðin 60 ár frá því að íslenska landsliðið í knattspyrnu bar sigurorð af Svíum 4-3 á Melavellinum. Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson skoraði öll mörk Íslendinga en sigursins er minnst sem eins þess merkilegasta í íslenskri knattspyrnusögu.
Í bókinni Rikki Fótboltakappi eftir Jón Birgi Pétursson rifjar Ríkharður upp leikinn.
„Þessi leikur er mér í fersku minni þótt langt sé síðan að hann var leikinn. Ég man líka aðdragandann og allan þennan dag. Um morguninn var ég mættur til vinnu, var að mála skip í slippnum. Í hádeginu laumaðist ég til mömmu til að sníkja mér bita. Þá segir hún mér frá draumi sem hana dreymdi þá nóttina. Hún sagði að ég myndi skora fimm mörk gegn Svíum um kvöldið, alla vega eiga stóran þátt í öllum þessum mörkum. Þetta þótti mér nú heldur ótrúlegt, kyssti mömmu fyrir matinn og góð orð í minn garð. Síðan hélt ég áfram að vinna, allt þar til tími var kominn til að keyra suður til Reykjavíkur í landsleikinn. Svona var þetta í gamla daga, menn slógu ekkert af í vinnu þótt stórleikir væru framundan, jafnvel landsleikir."
Í bókinni segir einnig frá því að Baldur Jónsson vallarstjóri Melavallarins hafa flutt áhorfendum góð tíðindi á meðan á leiknum stóð. Íslendingar hefðu sigrað Dani og Norðmenn í landskeppni í frjálsum íþróttum í Osló. Áhorfendur fögnuðu tíðindunum vel og ekki síður mörkunum fjórum sem Ríkharður átti eftir að skora.
Reyndar skoraði Ríkharður fimm mörk í leiknum en dómari leiksins Guðjón Einarsson dæmdi eitt af. Í bókinni segir:
„Ég held að Guðjóni hafi verið farið að líða illa, íslenskur dómari að dæma leik Íslands, og hans menn að vinna. Þennan leik neyddist hann til að dæma þar eð erlendu dómararnir komust ekki til landsins. Ég reikna með að ef þarna hefði verið erlendur dómari, þá hefðu mörkin mín orðið fimm, alveg eins og draumur mömmu sagði hann þennan morgun."
Íslenski boltinn