Sport

Murray og Nadal í undanúrslit á Wimbledon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lopez (t.v.) og Murray takast í hendur að loknum leik þeirra í dag
Lopez (t.v.) og Murray takast í hendur að loknum leik þeirra í dag Nordic Photos/AFP
Skotinn Andy Murray og Spánverjinn Rafael Nadal mætast í undanúrslitum á Wimbledon-mótinu í tennis á föstudag. Báðir unnu góða sigra á andstæðingum sínum í fjórðungsúrslitum mótsins í dag.

Andy Murray mætti hinum örvhenta Spánverja Feliciano Lopez á aðalvellinum í dag. Murray hafði tögl og haldir allan tímann og sigraði í þremur settum 6-3, 6-4 og 6-4. Þetta er þriðja árið í röð sem Skotinn kemst í undanúrslit mótsins.

Draumur Breta um sigur á heimavelli er því enn lifandi en 75 ár eru liðin síðan heimamaður stóð uppi sem sigurvegari. Fjöldi breskra stórstjarna fylgdist með gangi síns manns og má nefna ökuþórinn Lewis Hamilton og Pippu Middleton sem var mætt ásamt foreldrum sínum.

Rafael Nadal þurfti að hafa öllu meira fyrir sínum sigri á Bandaríkjamanninum Mardy Fish. Skipuleggjendur mótsins ákváðu að láta leikinn fara fram á velli 1 í stað aðalvallarins sem þjálfari Nadal var allt annað en sáttur við. Hann sigraði þó að lokum í fjögurra setta leik 6-3, 6-3, 5-7 og 6-4.

Nadal og Murray mætast því í undanúrslitum annað árið í röð. Nadal, sem á titil að verja, sigraði í viðureign þeirra í fyrra 6-4, 7-6 og 6-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×