Körfubolti

Sigrún Sjöfn: Vantaði upp á metnað hjá franska liðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skrifaði í dag undir samning við kvennalið KR í körfubolta. Sigrún Sjöfn sem lék í Frakklandi á síðustu leiktíð segir góða tilfinningu að vera komin í KR.

„Mér var boðið á æfingu hjá KR. Ég prufaði það og leist vel á það. Mér líst vel á umhverfið og svo ákvað ég að taka skólann,“ sagði Sigrún sem er á leið í nám í vetur.

Sigrún hefur spilað með Haukum, Hamar og KR á ferlinum og þekkir því vel til hjá íslenskum félögum.

„Jú ég skoðaði fleiri félög en ég þekki umhverfið vel. Þeir buðu mér samning sem ég tók,“ segir Sigrún. Hún segir KR hópinn mjög sterkan með frábæra leikmenn innanborðs.

„Þetta var mjög fín reynsla og frábært fyrir mig að bæta mig sem leikmann. Mér fannst vanta aðeins meiri metnað. Mér bauðst annar samningur en mér fannst vanta svolítið upp á,“ sagði Sigrún.

Sigrún segist ætla að taka eitt tímabil með KR og ætla svo að sjá til. Hún er ekki búin að útiloka að spila aftur erlendis.

Sigrún hefði getað myndað öflugt systrateymi með Guðrúnu Ósk systur sinni sem spilar með Haukum.

„Það kom alveg pressu frá litlu systur að fara saman í lið. Þetta er kannski erfiðast fyrir hana en svona verður þetta að vera.“

Sigrún segist ekki vera í sínu besta formi enda hafi hún sinnt hestamennskunni af miklu kappi í sumar á kostnað körfunnar.

„Ég er búin að vera mikið í hestamennskunni. Lagt mikinn metnað í það núna. Ég þarf að taka mig á af fullu núna,“ segir Sigrún sem segir hestamennskuna taka allan hennar hug og hjarta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×