Körfubolti

Sigrún komin heim og búin að semja við KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir varð bikarmeistari með KR 2009.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir varð bikarmeistari með KR 2009. Mynd/Vilhelm
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skrifaði í hádeginu undir samning við KR í Iceland Express deild kvenna í körfubolta og mun spila með liðinu í vetur. Sigrún lék síðasta vetur með franska liðinu Olympique Sannois Saint-Gratien en var síðast í Hamar þegar hún spilaði síðast heima veturinn 2009-2010.

Sigrún er önnur landsliðskonan sem gengur til liðs við KR í sumar en áður hafði Keflvíkingurinn Bryndís Guðmundsdóttir samið við liðið. Það er ljóst að KR-liðið verður mjög sterkt með þessa sterku og reyndu leikmenn innanborðs.

Sigrún var með 11,9 stig og 8,2 fráköst að meðaltali þegar hún spilaði með Hamar 2009-2010 en bæði tímabilin sem hún spilaði í Vesturbænum (2007-08 og 2008-09) þá komst hún í úrvalslið deildarinnar. Sigrún var með 14,4 stig og 9,8 fráköst í leik þegar hún spilaði með KR 2008-09.

Sigrún hefur komist í lokaúrslitin á Íslandsmótinu á fimm síðustu tímabilunum sem hún hefur spilað á Íslandi; með Haukum (2006, 2007), KR (2008, 2009) og Hamar (2010). Hún varð Íslandsmeistari með Haukum 2006, 2007, bikarmeistari með Haukum 2005 og 2007 og svo bikarmeistari með KR 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×