Veigar Páll Gunnarsson hefur tjáð sig um atburði helgarinnar er hann fór úr íslenska landsliðshópnum fyrir leik liðsins gegn Kýpur á þriðjudagskvöldið.
Veigar Páll hefur ítrekað hafnað beiðni Vísis um viðtal en tjáði sig um málið við fréttamann norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 í dag. Veigar mætti í dag á æfingu félags síns, Vålerenga, í Osló.
Í fréttinni, sem sjá má og lesa hér, er einnig rætt við Ólaf Jóhannesson sem tjáði sig fyrst um málið í kvöldfréttum Rúv í gær. Hann hafði áður neitað að tjá sig um atvikið, bæði fyrir og eftir leikinn gegn Kýpur.
Ólafur segir að það hafi verið tvær reglur sem leikmenn þurftu að fara eftir á laugardagskvöldið, þegar þeir fengu leyfi til að hitta vini og vandamenn. Annars vegar að skila sér aftur á hótel landsliðsins fyrir miðnætti og hins vegar að neyta ekki áfengis.
Ólafur sagði að Veigar hefði aðeins virt fyrri regluna en bætti við í samtali við TV2 í dag:
„Ég sá hann á hótelbarnum þar sem hann var að drekka," sagði Ólafur.
Veigar svaraði því. „Nei, ég var að drekka kaffi," sagði hann í gamansömum tón og bætti við:
„Hann á ekki að koma upp að mér og spyrja hvað í ósköpunum ég sé að gera. „Hvað meinarðu," sagði ég og hann svaraði: „Ég sé að þú ert búinn að drekka áfengi."
„Ég er fullorðinn maður. Eitt rauðvínsglas og tveir bjórar skipta engu fyrir leik á móti Kýpur. Ég fékk nóg og dró mig úr landsliðshópnum."
En Ólafur segir að hann hafi ákveðið að reka Veigar úr hópnum. „Ég sagði að hann yrði að fara," sagði Ólafur og ljóst að þar standa orð gegn orði.
Íslenski boltinn