Sport

Nadal og fleiri tennisstjörnur neita að spila í bleytunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Starfsmenn reyna hér að þurka einn völlinn sem keppt er á opna bandaríska meistaramótinu í tennis.
Starfsmenn reyna hér að þurka einn völlinn sem keppt er á opna bandaríska meistaramótinu í tennis. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tennisstjörnurnar Rafael Nadal, Andy Murray og Andy Roddick hafa sameinast í baráttu fyrir því að tennisfólk þurfi ekki að keppa á blautum völlum á opna bandaríska meistaramótinu í tennis.

Keppni var frestað í gær vegna úthellis rigningar annan daginn í röð og það eru 80 prósent líkur á því að það rigni líka í dag.

„Við munum ekki spila í rigningu," sagði Rafael Nadal og Andy Murray tók undir þetta: „Það er hættulegt að spila þegar línurnar eru sleipar. Við viljum spila en ekki þegar það er hætta á meiðslum," sagði Murray.

Mótshaldarar settu leiki af stað í gær en urðu síðan frá að hverfa eftir aðeins fimmtán mínútur.

„Ef að það er spurning um hvort að völlurinn sé leikfær við þessar aðstæður þá er hann það ekki. Völlurinn var blautur til endanna," sagði Andy Roddick.

Það kemur sér mjög illa fyrir mótshaldara að þurfa að fresta leikjum á mótinu enda búnir að selja miða og sjónvarpsútsendingar frá leikjum sem fara síðan ekki fram á skipulögðum tímum.

Úrslitaleikirnir áttu að fara fram um næstu helgi en það má búast við því að það skipulag fari vel út skorðum haldi áfram að rigna í New York.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×