Bandaríkjamaðurinn Dwight Phillips vann til gullverðlauna í langstökki karla á HM í Daegu. Phillips stökk 8,45 metra, tólf sentimetrum lengra en Ástralinn Mitchell Watt sem varð annar.
Phillips gaf tóninn í fyrsta stökki sínu sem mældist 8,31 metrar. Sigurstökkið upp á 8,45 metra kom í öðru stökki hans. Phillips gerði ógilt í fjórum síðustu stökkum sínum.
Phillips átti heimsmeistaratitil að verja frá því í Berlín árið 2009. Hann hefur staðið á verðlaunapalli á síðustu fimm heimsmeistaramótum. Unnið fjögur gullverðlaun og ein bronsverðlaun.
Ástralinn Mitchell Watt varð annar sem fyrr segir og Ngonidzashe Makusha frá Simbabve þriðji með stökk upp á 8,29 metra.
Heimsmetið í langstökki er í eigu Bandaríkjamannsins Mike Powell. Hann stökk 8,95 metra í frægu einvígi við landa sinn Carl Lewis á HM í Tókýó árið 1991.

