Sport

Djokovic reis upp frá dauðum og sló út Federer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic.
Novak Djokovic. Mynd/AP
Serbinn Novak Djokovic kom til baka úr nánast vonlausri stöðu og tryggði sér sæti í úrslitaleik opna bandaríska meistaramótsins með 3-2 sigri á Svisslendingnum Roger Federer. Roger Federer var kominn í 2-0 en tókst ekki að slá út Serbann snjalla sem er á eftir sínum fyrsta sigri á opna bandaríska meistaramótinu.

Djokovic hefndi þarna fyrir tap fyrir Federer í undanúrslitum í opna franska meistaramótinu en þá var hann búinn að vinna 43 leiki í röð. Djokovic mætir annaðhvort Rafael Nadal eða Andy Murray í úrslitaleiknum en þar getur hann unnið sitt þriðja risamót á árinu.

„Þetta var án nokkurs vafa minn stærsti sigur í ár og kannski sá stærsti á ferlinum," sagði Novak Djokovic eftir sigurinn. Hann hefur þegar unnið opna ástralska mótið og Wimbledon-mótið á þessu ári.

Federer vann fyrstu tvær loturnar 7-6 og 6-4. Djokovic jafnaði með því að vinna næstu tvær lotur 6-3 og 6-2 og tryggði sér síðan sigurinn með 7-5 sigri í úrslitalotunni.

Þetta verður því í fyrsta sinn í níu ár sem Roger Federer tekst ekki að vinna eitt af risamótunum fjórum en hann hefur alls unnið sextán risamót á ferlinum. Federer vann síðast á risamóti á opna ástralska mótinu árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×