Sport

Þjálfurum í NFL-deildinni lenti saman eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jim Harbaugh, þjálfari San Francisco 49ers og Jim Schwartz, þjálfari Detroit Lions, hafa vakið mikla athygli fyrir frábæra byrjun sinna liða í NFL-deildinni en það var þó ekki frammistaða liða þeirra sem vakti mesta athygli í gær heldur það sem gerðist milli þeirra eftir leikinn.

San Francisco 49ers vann í gær nauman 25-19 sigur á Detroit Lions sem tapaði þarna í fyrsta sinn á tímabilinu. 49ers hefur þar með unnið 5 af 6 leikjum sínum sem er besta byrjun félagsins í mörg ár.

Jim Harbaugh fagnaði sigrinum innilega í leikslok og kom skoppandi til Jim Schwartz og þakkaði honum fyrir leikinn með því að taka hraustlega í höndina á honum og klappa honum síðan á bakið.

Schwartz var allt annað en sáttur og hljóp strax á eftir Harbaugh og endanum þurftu leikmenn þeirra að skilja á milli þjálfaranna tveggja.  

„Ég fór til að óska Harbaugh þjálfara til hamingju með sigurinn en var ýtt í burtu. Ég átti ekki von á þessu því menn verða að kunna sig þótt að þeir séu ánægðir með sigurinn," sagði Jim Schwartz.

„Þetta er algjörlega mér að kenna. Ég tók of fast í höndina á honum," sagði Jim Harbaugh en aganefnd NFL mun taka málið fyrir í vikunni. Það er hægt að skoða atvikið með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×