Sport

Eygló Ósk fyrst til að synda 100 metra baksund á undir einni mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Mynd/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi bætti Íslandsmetið í 100 metra baksundi í annað skiptið í dag þegar hún tryggði sér glæsilegan sigur í greininni á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem nú stendur yfir í Laugardalslauginni.

Eygló Ósk gerði gott betur en að bæta metið sitt frá því morgun því hún varð fyrsta íslenska konan til að synda 100 metra baksund undir einni mínútu. Eygló bætti metið frá því í morgun um rétt tæpar tvær sekúndur.

Eygló Ósk synti á 59,81 sekúndu í úrslitasundinu en metið hennar frá því í morgun var upp á 1:01.75 mínútu. Fyrir daginn í dag hafði hún best synt á 1:01.92 mínútu sem var einnig Íslandsmet.

Eygló Ósk er enn bara sextán ára gömul og því eru öll þessi met hennar einnig stúlknamet.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH átti einnig frábært sund og synti einnig á undir einni mínútu en hún var með forystuna framan af í sundinu. Ingibjörg var aðeins fjórum hundraðhlutum á eftir Eygló og því er þetta óumdeildanlega besta 100 metra baksund íslenskra kvenna í sögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×