Körfubolti

Margrét Kara: Ætlum að vera í hörkuformi þegar harkan byrjar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Kara Sturludóttir
Margrét Kara Sturludóttir Mynd/Anton
Margrét Kara Sturludóttir og félagar í KR unnu öruggan 68-53 sigur á Val í Iceland Express deild kvenna í Vodafonehöllinni í kvöld. Margrét Kara var stigahæst í KR-liðinu með 19 stig.

„Ég er mjög ánægð með þetta. Við uppskárum eftir góða vörn í öðrum. Við vorum rólegar í fyrsta leikhlutanum en svo kom þetta allt saman í öðrum," sagði Margrét Kara en KR vann annan og þriðja leikhluta samanlagt 38-16.

„Við erum að verða betri og betri á móti svæðinu enda eru nánast öll liðin að spila svæði á móti okkur. Við erum að vinna í okkar málum á æfingum og erum að undirbúa okkur vel fyrir það sem liðin eru að spila á móti okkur. Við erum farnar að finna svörin á móti svæðisvörninni," sagði Margrét Kara.

KR-liðið tapaði þremur leikjum í röð á dögunum en er nú aftur komið sigurbraut. Liðið leit vel út í kvöld og þá sérstaklega varnarlega.

„Við byrjuðum tímabilið rosalega vel en fengum síðan aðeins högg í andlitið. Við erum að skríða upp á bakkann og erum ánægðar með það. Við erum að leggja meira á okkur á æfingum og ætlum að vera í hörkuformi þegar harkan byrjar," sagði Margrét Kara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×