Körfubolti

Njarðvíkustelpur fóru illa með toppliðið - unnu Keflavík 94-53

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shanae Baker.
Shanae Baker. Mynd/Stefán
Njarðvík vann óvæntan 41 stigs stórsigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna í körufbolta í dag. Njarðvík tók völdin í leiknum strax í upphafi leiks og vann að lokum 94-53 sigur.

Keflavíkurkonur voru búnar að vinna níu leiki í röð og voru með fjögurra stiga forskot á Njarðvík fyrir leikinn en þær áttu engin svör í Ljónagryfjunni í dag.

Njarðvík var 27-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með tólf stiga forskot í hálfleik, 46-34. Njarðvík vann síðan þriðja leikhlutann með níu stigum, 18-9, og stráði síðan salt í sárið með því að vinna fjórða leikhlutann 30-10.

Lele Hardy var með tröllatvennu hjá Njarðvík en hún skoraði 20 stig og tók 21 fráköst. Shanae Baker var síðan með 27 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir lék einnig mjög vel og skoraði 17 stig.

Njarðvíkurliðið hélt líka Jaleesa Butler í aðeins 5 stigum á 33 mínútum en hún klikkaði meðal annars á 11 af 12 tveggja stiga skotum sínum. Pálína Gunnlaugsdóttir var atkvæðamest hjá Keflavík með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×