Körfubolti

Þrír erlendir leikmenn ekki nóg fyrir Njarðvík á móti KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Kara Sturludóttir hjá KR.
Margrét Kara Sturludóttir hjá KR.
KR-konur unnu tíu stiga sigur á Njarðvík, 70-60, í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í DHL-höllinni í kvöld en þetta var síðasti leikurinn áður en deildinni er skipt í tvennt, í A- og B-deild.

Njarðvík lék þarna sinn fyrsta leik með pólska miðherjann Julia Demirer innanborðs en fyrir hjá liðinu voru bandaríska stelpan Shayla Fields og lettneska stelpan Dita Liepkalne.

Chazny Morris skoraði 16 stig fyrir KR, Margrét Kara Sturludóttir var með 15 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar, Signý Hermannsdóttir skoraði 11 stig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 9 stig.

Erlendu leikmennirnir skoruðu saman 41 stig hjá Njarðvík en Shayla Fields var stigahæst með 19 stig. Dita Liepkalne skoraði 13 stig og tók 10 fráköst og Demirer var með 9 stig og 14 fráköst í sínum fyrsta leik í Njarðvíkurbúningnum. Arnína Lena Rúnarsdóttir skoraði 12 stig fyrir Njarðvíkurliðið.

KR var 21-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með tíu stiga forskot í hálfleik, 39-29. Njarðvík minnkaði muninn með ágætum þriðja leikhluta og staðan var 52-47 fyrir KR fyrir lokaleikhlutann. KR-liðið hafði síðan betur í lokaleikhlutanum og tryggði sér góðan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×