Viðskipti innlent

Kaupþingsrannsókn: Hægri hendur teknar höndum

Robert Tchenguiz er til hægri á myndinni. Hinn er bróðir hans, Vincent.
Robert Tchenguiz er til hægri á myndinni. Hinn er bróðir hans, Vincent.

Aaron Brown og Tim Smalley eru ekki þekkt nöfn, en þeir hafa engu að síður hlotið umfjöllun í Bretlandi sem drifkrafturinn og heilinn – eða öllu heldur heilarnir – að baki viðskiptaveldis Roberts Tchenguiz, hins írask-íranska kaupsýslumanns.

Smalley og Tchenguiz þekktust vel áður en þeir hófu formlegt samstarf. Smalley hafði nefnilega í nokkur ár starfað fyrir fjármálafyrirtæki við að útvega fyrirtækinu Rotch lánafyrirgreiðslu. Rotch var í eigu bræðranna Roberts og Vincents Tchenguiz. Þegar fjármálastofnunin sem hann vann hjá hætti að lána til risavaxinna fasteignafélaga á borð við Rotch gekk Smalley einfaldlega til liðs við Robert.

Brown er lögfræðingur eins og Smalley og hafði starfað hjá bönkum við samningagerð í kringum netbóluna. Árið 2004 hóf hann störf, ásamt Smalley, hjá R20, fjárfestingafélagi Roberts Tchenguiz. Þremenningarnir unnu árið 2006 í sameiningu að miklu tilboði, upp á 4,6 milljarða punda, í barkeðjuna Mitchells & Butlers. Utan um það tilboð stofnuðu þeir félagið Jedi Inns, sem hét eftir Jedi-riddurunum úr Stjörnustríðsmyndunum. Nafnið þótti lýsandi fyrir samningatæknina sem þeir beittu; þeir fengu almennt það sem þeir vildu og hlustaðu ekki á nei sem svar.

Brown og Smalley voru báðir handteknir í gærmorgun, grunaðir um að eiga þátt í þeim brotum sem SFO hefur til rannsóknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×