Fyrsta plata rapparans Emmsjé Gauta, Bara ég, kemur út síðar í þessum mánuði á vegum Geimsteins. Gauti rappaði með Erpi Eyvindarsyni í laginu Elskum þessar mellur í fyrra og gerir það einnig á nýju plötunni í laginu Hemmi Gunn. Platan á vafalítið eftir að vekja mikið umtal og athygli.
Ný plata Gus Gus, Arabian Horse, kemur út 23. maí á vegum Smekkleysu, þar sem Högni Egilsson er gestasöngvari.

Sálarplata Bubba Morthens, Ég trúi á þig, kemur út á vegum Senu á 55 ára afmælisdegi rokkarans, 6. júní. Annar reynslubolti, Helgi Björnsson, gefur út sína þriðju plötu með Reiðmönnum vindanna í júní en tvær fyrstu plöturnar hafa selst eins og heitar lummur. Popparinn Jón Jónsson sendir frá sér sína fyrstu plötu í byrjun júlí hjá Senu. Hann hefur átt nokkur vinsæl lög að undanförnu og líklegt má telja að sumarlegir tónar hans eigi eftir að falla vel í kramið.
Ný plata frá Mugison þar sem hann syngur á íslensku er einnig á leiðinni. Þetta verður blúsuð þjóðlagaplata og miðað við fyrsta lagið sem hefur heyrst af henni, Haglél, er heldur betur von á góðu.

Á meðal annarra væntanlegra útgáfa í sumar er samstarfsverkefni Valdimars Guðmundssonar úr hljómsveitinni Valdimar og Björgvins Ívars Baldurssonar, fyrsta plata Myrru Rósar og ný plata Snorra Helgasonar.
Rokkararnir í Reykjavík! eru einnig á leiðinni í hljóðver í næsta mánuði en ekki er ljóst hvort platan kemur út í sumar eða næsta vetur. Slugs, hljómsveit Sindra Eldon, gefur svo út sína aðra plötu í sumar á vegum Smekkleysu.
Lay Low verður einnig í hljóðveri í maí og hyggst gera plötu á íslensku við ljóð íslenskra kvenskálda, auk þess sem Legend, ný hljómsveit Krumma Björgvinssonar og Halldórs Björnssonar, gefur út sína fyrstu plötu í sumar.
freyr@frettabladid.is