
Íbúðarvagninn er allur sá glæsilegasti, um það verður ekki deilt, enda þarf Smith að punga út níu þúsund dölum í leigu á viku. Hann er 107 fermetrar á tveimur hæðum og skartar meðal annars sérstöku kvikmyndaherbergi með 100 tommu sjónvarpsskjá, skrifstofu fyrir aðstoðarmenn, stóru svefnherbergi og granítlögðu baðherbergi. Vagninn er á 22 hjólum og vegur í kringum þrjátíu tonn. Hvorki meira né minna.
Nágrannarnir tóku þessu illa, jafnvel þótt þetta væri Will Smith, enda stóð vagninn í miðju hverfinu og skyggði á allt og alla. Bandaríska dagblaðið The New York Post fór á stúfana og ræddi við nokkra íbúa í hverfinu og þeir voru flestir á einu máli um að hegðun Smith væri til háborinnar skammar fyrir hann og tökuliðið.
Að endingu neyddist borgarstjórinn í New York, Michael Bloomberg, til að blanda sér í málið. Hann skipaði leikaranum í gær að færa ferlíkið og koma því fyrir á minna áberandi stað.
„Hver þarf svona stóran íbúðarvagn? Ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt að fá þá svona stóra,“ hefur New York Post eftir borgarstjóranum. Í kjölfarið var send út yfirlýsing frá skrifstofu borgarstjóra. Þar kom fram að til að minnka ónæðið af tökum á MIB 3 fyrir íbúa SoHo-hverfisins hefði skrifstofa borgarstjórans í New York beðið aðstandendur um að færa íbúðarvagninn á einkasvæði, og var það gert.
Þegar Will Smith var sjálfur spurður útí málið hafði hann fátt um það að segja: „Ég bara skil ekki öll þessi læti.“
freyrgigja@frettabladid.is
