Múgurinn spurður Pawel Bartoszek skrifar 8. júlí 2011 07:30 Í þeim fræðum sem snúa að beinni þátttöku almennings í töku ákvarðana er stundum gerður greinarmunur á þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem stofnað er til að kröfu kjósenda, eða vegna þess að þeirra er krafist samkvæmt lögum, og svo þeim sem stjórnmálamennirnir sjálfir setja í gang. Á ensku kalla sumir fræðimenn þær fyrrnefndu „referendum“ en nefna þær síðarnefndu „plebiscite“. „Referendum“ er gjarnan þýtt sem þjóðaratkvæði. „Plebiscite“ mætti þýða sem „múgspurningu“. Munurinn á framkvæmd þjóðaratkvæðis og múgspurningar er þannig séð lítill. Í báðum tilfellum mæta menn í kjörklefa, krossa við já eða nei og henda svarinu í þar til gerðan kassa. En munurinn á þeim atkvæðagreiðslum sem stjórnmálastéttin kallar fram, þ.e.a.s. múgspurningum, og þeim sem þurfa að fara fram þvert á hennar vilja er auðvitað talsverður. Stærsta gagnrýnin á múgspurningar er að þær auka völd stjórnmálamanna í stað þess að tempra þau. Ef stjórnmálamenn vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál þá kann að vera að þeir vilji annaðhvort leysa úr eigin deilum, firra sig ábyrgð, styrkja stöðu málefnis sem þeir aðhyllast, eða hindra framgöngu máls sem ella næði í gegn. Stundum getur munurinn á þjóðaratkvæði og múgspurningu verið óljós. Atkvæðagreiðslurnar tvær um Icesave voru þannig ákveðnar af stjórnmálamanni, forseta Íslands, þótt sannarlega mætti færa fyrir því rök að stór hópur kjósenda hafi gert um þær kröfu. Á þann hátt væri hæpið að kalla þær múgspurningar. Öllu verra var raunar að forsetinn hafi gert það að rökum, synjuninni til stuðnings, að daggóður slatti af þingmönnum hafi sagst vilja þjóðaratkvæði um málið. Það kemur málinu ekkert við. Það er þingforseta að telja atkvæði á þingi, ekki forseta Íslands. Kröfur minnihluta um þjóðaratkvæði á þingi eru oftast látalæti. Af og til, þegar umdeild stórpólitísk mál eru afgreidd, kalla þeir sem í þann mund eru að tapa atkvæðagreiðslunni eftir því að „þjóðin“ fái að tjá sig um það í þjóðaratkvæði. Slík krafa býr til eitt nafnakallið til viðbótar og lengir sjónvarpsútsendinguna. Auðvitað hefur slíkt múgspurningarákall enga merkingu aðra en þá að setja stuðningsmenn meirihlutans í þá stöðu að vera „hræddir við þjóðina“. Að sjálfsögðu vita menn að slíkar kröfur ná ekki í gegn. Stuðningur við þær er einfaldlega speglun á stuðningi við málið sem verið er að afgreiða. Þannig vildi núverandi fjármálaráðherra á sínum tíma að „þjóðin“ fengi að tjá sig um afnám bjórbannsins en var nýlega minna spenntur fyrir þjóðaratkvæði um ESB-umsókn eða Icesave. Það væri rangmælt að kalla slíka afstöðu hræsni, svo augljós er leiksýningin. Leikarar verða vart kallaðir lygarar, eða hræsnarar. Annað dæmi um múgspurningar eru þær atkvæðagreiðslur sem stjórnmálamenn nota til að forða sjálfum sér undan ábyrgð og ákvörðun í erfiðum málum. Hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur um umsókn að ESB falla að einhverju leyti í þennan flokk. Sama á við um fleiri mál sem sundra gjarnan stjórnmálaflokkum. Það er auðvitað auðvelt að leysa hvaða deilu sem er með því að vísa henni annað. En það er samt ekkert spes lausn. Loks bera að nefna þær múgspurningar sem stjórnmálamenn leggja til í því skyni að styrkja málefnastöðu sína. Slíkt kemur óneitanlega upp í hugann þegar tillögur um þjóðaratkvæði, eða öllu heldur múgspurningu, um breytingar á kvótakerfinu ber á góma. Auðvitað er fátt sem varnar ríkisstjórninni að gera þær breytingar á kvótakerfinu sem hún telur nauðsynlegar. Að bera upp múgspurningu um kvótakerfið getur varla þjónað öðrum tilgangi en þeim að vera hótun við andstæðinga breytinganna og um leið von um að atkvæðagreiðslan snúist um „gjafakvótann“, „þjóðareignina“ og „kvótabraskið“ fremur en það hvort það kerfi sem lagt er til sé sannarlega betra og hagkvæmara en það gamla. Notkun þjóðaratkvæðagreiðslna um heim allan hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Sé vel að málum staðið getur beint lýðræði aukið aðhald stjórnmálamanna og eflt lýðræðislegan þroska kjósenda. En hafa ber sérstakan vara á þegar stjórnmálamenn í nafni beins lýðræðis leggja til múgspurningar í því skyni að ná fram eigin markmiðum. Saga tuttugustu aldar geymir ýmis víti sem ber að varast í þeim efnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Í þeim fræðum sem snúa að beinni þátttöku almennings í töku ákvarðana er stundum gerður greinarmunur á þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem stofnað er til að kröfu kjósenda, eða vegna þess að þeirra er krafist samkvæmt lögum, og svo þeim sem stjórnmálamennirnir sjálfir setja í gang. Á ensku kalla sumir fræðimenn þær fyrrnefndu „referendum“ en nefna þær síðarnefndu „plebiscite“. „Referendum“ er gjarnan þýtt sem þjóðaratkvæði. „Plebiscite“ mætti þýða sem „múgspurningu“. Munurinn á framkvæmd þjóðaratkvæðis og múgspurningar er þannig séð lítill. Í báðum tilfellum mæta menn í kjörklefa, krossa við já eða nei og henda svarinu í þar til gerðan kassa. En munurinn á þeim atkvæðagreiðslum sem stjórnmálastéttin kallar fram, þ.e.a.s. múgspurningum, og þeim sem þurfa að fara fram þvert á hennar vilja er auðvitað talsverður. Stærsta gagnrýnin á múgspurningar er að þær auka völd stjórnmálamanna í stað þess að tempra þau. Ef stjórnmálamenn vilja þjóðaratkvæði um tiltekið mál þá kann að vera að þeir vilji annaðhvort leysa úr eigin deilum, firra sig ábyrgð, styrkja stöðu málefnis sem þeir aðhyllast, eða hindra framgöngu máls sem ella næði í gegn. Stundum getur munurinn á þjóðaratkvæði og múgspurningu verið óljós. Atkvæðagreiðslurnar tvær um Icesave voru þannig ákveðnar af stjórnmálamanni, forseta Íslands, þótt sannarlega mætti færa fyrir því rök að stór hópur kjósenda hafi gert um þær kröfu. Á þann hátt væri hæpið að kalla þær múgspurningar. Öllu verra var raunar að forsetinn hafi gert það að rökum, synjuninni til stuðnings, að daggóður slatti af þingmönnum hafi sagst vilja þjóðaratkvæði um málið. Það kemur málinu ekkert við. Það er þingforseta að telja atkvæði á þingi, ekki forseta Íslands. Kröfur minnihluta um þjóðaratkvæði á þingi eru oftast látalæti. Af og til, þegar umdeild stórpólitísk mál eru afgreidd, kalla þeir sem í þann mund eru að tapa atkvæðagreiðslunni eftir því að „þjóðin“ fái að tjá sig um það í þjóðaratkvæði. Slík krafa býr til eitt nafnakallið til viðbótar og lengir sjónvarpsútsendinguna. Auðvitað hefur slíkt múgspurningarákall enga merkingu aðra en þá að setja stuðningsmenn meirihlutans í þá stöðu að vera „hræddir við þjóðina“. Að sjálfsögðu vita menn að slíkar kröfur ná ekki í gegn. Stuðningur við þær er einfaldlega speglun á stuðningi við málið sem verið er að afgreiða. Þannig vildi núverandi fjármálaráðherra á sínum tíma að „þjóðin“ fengi að tjá sig um afnám bjórbannsins en var nýlega minna spenntur fyrir þjóðaratkvæði um ESB-umsókn eða Icesave. Það væri rangmælt að kalla slíka afstöðu hræsni, svo augljós er leiksýningin. Leikarar verða vart kallaðir lygarar, eða hræsnarar. Annað dæmi um múgspurningar eru þær atkvæðagreiðslur sem stjórnmálamenn nota til að forða sjálfum sér undan ábyrgð og ákvörðun í erfiðum málum. Hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur um umsókn að ESB falla að einhverju leyti í þennan flokk. Sama á við um fleiri mál sem sundra gjarnan stjórnmálaflokkum. Það er auðvitað auðvelt að leysa hvaða deilu sem er með því að vísa henni annað. En það er samt ekkert spes lausn. Loks bera að nefna þær múgspurningar sem stjórnmálamenn leggja til í því skyni að styrkja málefnastöðu sína. Slíkt kemur óneitanlega upp í hugann þegar tillögur um þjóðaratkvæði, eða öllu heldur múgspurningu, um breytingar á kvótakerfinu ber á góma. Auðvitað er fátt sem varnar ríkisstjórninni að gera þær breytingar á kvótakerfinu sem hún telur nauðsynlegar. Að bera upp múgspurningu um kvótakerfið getur varla þjónað öðrum tilgangi en þeim að vera hótun við andstæðinga breytinganna og um leið von um að atkvæðagreiðslan snúist um „gjafakvótann“, „þjóðareignina“ og „kvótabraskið“ fremur en það hvort það kerfi sem lagt er til sé sannarlega betra og hagkvæmara en það gamla. Notkun þjóðaratkvæðagreiðslna um heim allan hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Sé vel að málum staðið getur beint lýðræði aukið aðhald stjórnmálamanna og eflt lýðræðislegan þroska kjósenda. En hafa ber sérstakan vara á þegar stjórnmálamenn í nafni beins lýðræðis leggja til múgspurningar í því skyni að ná fram eigin markmiðum. Saga tuttugustu aldar geymir ýmis víti sem ber að varast í þeim efnum.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun