Grétar Rafn Steinsson, fastamaður í enska úrvalsdeildarliðinu Bolton og lykilmaður íslenska landsliðsins undanfarin ár, hefur ekkert spilað með landsliðinu á þessu ári. Enn fremur var tilkynnt á dögunum að hann myndi heldur ekkert spila með liðinu meira á þessu ári vegna persónulegra vandamála.
Ísland mætir Ungverjalandi í æfingaleik ytra á morgun en Grétar Rafn spilaði síðast með íslenska landsliðinu gegn Portúgal í undankeppni EM 2012. Sá leikur fór fram í október í fyrra.
Grétar Rafn segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé gert með sorg í hjarta en sé því miður nauðsynlegt.
„Undanfarið ár hef ég verið í baráttu utan fótboltavallarins og því miður hef ég af þeim sökum ekki getað gefið hundrað prósent af mér til landsliðsins. Ég varð að vera hreinskilinn og viðurkenna það gagnvart sjálfum mér, þjálfaranum og ekki síst liðinu sjálfu,“ segir Grétar Rafn sem kaus að greina ekki frekar frá hvers eðlis sín vandamál væru.
„Ég er knattspyrnumaður – lífið er ekki alltaf dans á rósum. Það þarf stundum að sjá til þess að allt utan fótboltavallarins sé í lagi til að ég geti stundað mína vinnu af fullum krafti. Það er mikið álag sem fylgir mínu starfi og í augnablikinu treysti ég mér ekki til að gefa landsliðinu allt mitt. Ég verð að gera það í minni vinnu en ég get ekki mætt í landsleiki með hálfum huga. Frekar sleppi ég því.“
Hann segir að það sé meira sem komi til, til að mynda barátta við hnémeiðsli sem hann hafi verið að glíma við undanfarin tvö ár. „En fyrst og fremst snýst þetta um að ég er að spila í mjög erfiðri deild og ég þarf að vera 100 prósent til að standa mig,“ segir hann.
Hann segist vera stoltur af því að fá að klæðast íslenska landsliðsbúningnum. Ákvörðun hans tengist ekki landsliðinu, þó svo að árangur þess hafi látið á sér standa undanfarin ár. „Ég hef ekkert á móti landsliðsþjálfaranum eða neinu slíku. Ég hef áður sagt að ég vilji meiri árangur og að það sé hægt að gera betur. En það er ekki ástæðan fyrir því að ég gef ekki kost á mér nú,“ segir Grétar. Hann ætlar þó að gefa aftur kost á sér í landsliðið eftir áramót.
„Það eru spennandi tímar fram undan í landsliðinu og ég vil taka þátt í því. En í augnablikinu þarf ég einfaldlega að einbeta mér að því að klára þau atriði sem ég þarf að klára áður en lengra er haldið. Það er gert með mikilli sorg í hjarta en þegar ég er búinn að því, þá kem ég til baka.“
Íslenski boltinn