„Ég er að lenda eftir kvöldið, sem var frábært í alla staði,“ segir Harpa Einarsdóttir fatahönnuður, en hún bar sigur úr býtum í fatahönnunarkeppninni Reykjavík Runway á fimmtudagskvöld.
Spurð hvort hún hafi átt von á sigrinum svarar Harpa: „Já, ég var alveg búin undir það og hafði mikla trú á verkefninu og sjálfri mér. Ég var búin að leggja mikla vinnu í þetta og ætlaði mér hreinlega að vinna.“
Harpa fór heim með hálfrar milljónar króna ávísun, boðskort á tískuvikuna í New York og alhliða rekstraraðstoð frá fyrirtækinu Reykjavik Runway næsta árið.
„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég vinn keppni, hef oft lent í öðru og þriðja sæti en nú vann ég loksins.“
Mikið gekk á hjá Hörpu í aðdraganda keppninnar, en mikil seinkun var á efnunum sem pöntuð voru að utan. „Ég fékk efnin mín allt of seint og ég svaf sama og ekkert í tvo sólarhringa fyrir keppnina,“ segir Harpa, en nú tekur við mikil vinna hjá henni. Fyrst á dagskrá er að búa til bæklinga og panta flugfar til New York á tískuvikuna en þar er ætlunin að kynna merkið, Ziska, fyrir útlendan markað.
Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Reykjavík Runway og afhenti Hörpu verðlaunin í fyrrakvöld. „Hún er yndisleg og ég hef hitt hana áður. Hún bað mig einmitt um að hringja í sig þegar ég kæmi til New York svo við gætum hist.“
- áp
Ætlar að hitta Dorrit í New York
