„Við munum fylgja þeim eftir eins og skugginn þarna úti,“ segir Garðar Örn Arnarson, nemi í Kvikmyndaskóla Íslands.
Hann er að vinna heimildarmynd um slökkviliðið á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli ásamt tveimur félögum sínum úr Kvikmyndaskóla Íslands. Fimmtán manna hópur slökkviliðsins flaug á fimmtudaginn til New York til að taka þátt í Ólympíuleikum slökkviliðs- og lögreglumanna og voru Garðar Örn og félagar með í för.
Einnig taka þátt í leikunum um sjötíu aðrir íslenskir slökkviliðs- og lögreglumenn. Alls verða um fimmtíu þúsund keppendur á leikunum sem verða haldnir í New York í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum 11. september. „Við ætlum að fara á Ground Zero og eigum skipulagða fundi á nokkrum slökkvistöðvum í New York. Við förum líka heim til nokkurra slökkviliðsmanna og spyrjum hvernig var að vera í vinnunni 11. september,“ segir Garðar Örn.
Hugmyndin um að gera heimildarmyndina kom frá slökkviliðinu sjálfu þegar ljóst var að það væri á leiðinni á Ólympíuleikana. „Mér leist strax vel á þetta. Hugmyndin var fyrst að gera þætti en við réðumst síðan í að breyta þessu í heimildarmynd.“ Myndin hefur hlotið vinnuheitið Leiðin á heimsleikana en að sögn Garðars Arnar er þetta í fyrsta sinn sem gerð er heimildarmynd um íslenska slökkviliðsmenn. - fb
