
Bandaríska söngkonan Sinitta ræddi á mjög opinskáan hátt um samband sitt við sjónvarpsstjörnuna Simon Cowell í nýlegu tímariti People. Tilefnið var viðtal útvarpsmannsins Howards Stern við Cowell. Þar upplýsti sjónvarpsmógúllinn að hann hefði átt nána stund með tveimur konum í einu og að hann væri ekki viss um hvort hann væri enn trúlofaður afganska förðunarmeistaranum Mezhgan Hussainy. Talskona Cowells brást mjög snöggt við þegar Cowell lét þessi orð falla og sagði fjölmiðlum að Cowell væri mjög annt um einkalíf sitt.
Sinitta kæmi það hins vegar ekki á óvart ef Hussainy hefði gefist upp á Cowell. Sjónvarpsmaðurinn hafi aldrei verið við eina fjölina felldur. „Hann hélt oft og mörgum sinnum framhjá mér og ég fann það eiginlega strax að ég gæti ekki treyst honum,“ hefur People eftir söngkonunni. Sinitta var fyrsti skjólstæðingur Cowells en hún varð stórstjarna á meðan Cowell var að koma sér á framfæri í umboðsmennsku og var enn tiltölulega óþekktur. Sinitta og Cowell hafa haldið góðu sambandi í gegnum tíðina en söngkonan lýsir honum engu að síður sem kynóðum hundi. „Hann er eins og persónan í Shaggy-laginu It Wasn‘t Me. þar er náunginn alltaf gripinn glóðvolgur við framhjáhaldið en neitar alltaf sök. Þannig var Cowell. Hann elskar allar konur, af öllum stærðum og gerðum.“
Cowell hefur enn ekki viljað staðfesta að sambandi hans og Hussainy sé lokið. Daily Mirror greinir hins vegar frá því að Hussainy sé flutt í „grafreit gamalla kærasta“ eins og húsið er kallað af nánum vinum sjónvarpsstjörnunnar en það er skammt frá glæsilegri villu sjónvarpsmannsins í Beverly Hills. „Ég veit ekki hvort Simon hafi hætt með henni eða hún með honum. Maður veit aldrei með hann.“ freyrgigja@frettabladid.is