Elmar er á fimmta ári í læknisfræði við Háskóla Íslands og kom námið sér að góðum notum þegar hann flaug heim frá New York um miðjan mánuðinn. Þá veiktist farþegi um borð í vélinni og í fréttum af atvikinu er greint frá því að læknir hafi verið um borð í vélinni sem sinnti sjúklingnum allt til lendingar, en þar var einmitt Elmar að verki.
„Ég hafði brugðið mér á klósettið og þegar ég kom aftur fram var allt farið í háaloft. Okkur var tilkynnt að bráðveikur maður væri um borð og svo var óskað eftir lækni eða hjúkrunarfræðingi og ég gaf mig auðvitað fram og gerði svo bara mitt besta til að sinna manninum." Vélinni var nauðlent í Goose Bay í Kanada þar sem maðurinn var fluttur á sjúkrahús.

Þegar Elmar er inntur eftir því hvort erfitt sé að setjast aftur á skólabekk eftir New York-dvölina játar hann því. „Þetta eru miklar andstæður og það tók mig nokkra daga að koma mér aftur í gömlu rútínuna mína. En mér finnst ég heppinn að geta upplifað báða heima."- sm