Paul Simon fagnar 25 ára afmæli goðsagnakenndu plötunnar Graceland með tónleikaferðalagi á næsta ári. Graceland, sem jafnan er valin ein af bestu plötum poppsögunnar í þess háttar kosningum, kom út árið 1986 en árið eftir lagði Simon upp í tónleikaferðalag til að kynna hana.
Breska tónlistartímaritið NME greinir frá því að hljómsveitin Ladysmith Black Mambazo frá Suður-Afríku verði með á tónleikaferðalaginu, en sveitin varð fræg eftir að hafa komið fram á Graceland. Um líkt leyti og lagt verður upp í tónleikaferðalagið verður gefinn út sérstakur Graceland-safnkassi og sérstök útgáfa af plötunni sem einungis mun fást í takmörkuðu upplagi.
Paul Simon lék á tónleikum í Laugardalshöll árið 2008 en ekki liggur fyrir hvort hann heimsækir Ísland á næsta ári.
Simon flytur Graceland
