Söngkonan Rihanna er efst á lista yfir þá tónlistarmenn sem fengu flest „like“ á Facebook í ár. Hún skýtur þar með reggísöngvaranum sáluga Bob Marley og söngkonunni Avril Lavigne ref fyrir rass, en þau voru í öðru og þriðja sæti, samkvæmt tölum frá Facebook.
Rihanna átti einnig vinsælasta lagið á Facebook, en ekkert lag var spilað jafn oft og samstarf hennar og Calvins Harris, smellurinn We Found Love. Katy Perry og lag hennar Last Friday Night (T.G.I.F) var í öðru sæti og hljómsveitin LMFAO‘s var í því þriðja með lagið Sexy and I Know It.

