Körfubolti

Kvennalið Njarðvíkur með þrjá erlenda leikmenn á móti KR í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julia Demirer í leik með Hamar í fyrra.
Julia Demirer í leik með Hamar í fyrra.
KR og Njarðvík leika í kvöld síðasta leikinn áður en Iceland Express deild kvenna í körfubolta verður skipt upp í A og B-deild. Það er þó þegar ljóst að KR verður í A-deild og Njarðvík í B-deild. Njarðvíkurliðið teflir fram nýjum leikmanni í leiknum í kvöld því pólski miðherjinn Julia Demirer, fyrrum leikmaður Hamars, er kominn til liðsins.

Njarðvíkurliðið er því komið með þrjá erlenda leikmenn því fyrir eru bandaríska stelpan Shayla Fields (23,7 stig, 9,8 fráköst og 3,6 stoðsendingar í leik) og lettneska stelpan Dita Liepkalne (15,5 stig, 9,5 fráköst og 3,3 stoðsendingar í leik).

Julia Demirer var með 19,8 stig, 13,3 fráköst og 2,2 stoðsendingar að meðaltali með Hamar í fyrra og hún átti þá mikinn þátt í því að liðið fór alla leið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Okkur vantaði sterkan leikmann í teiginn því við erum með margar ungar sem hafa spilað mikið og skilað fínum mínútum, en okkur vantaði þessa stöðu og hefur vantað í allan vetur," sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur í samtali við Karfan.is.

„Julia er komin til að hjálpa okkur í lokabaráttunni, við erum að reyna að komast í úrslitakeppnina, á sama tíma er stutt í botninn og við erum líka í fjögurra liða úrslitum í bikarkeppninni," sagði Sverrir ennfremur í viðtalinu á karfan.is

Leikur KR og Njarðvíkur fer fram í DHL-Höllinni og hefst klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×