Lars Lagerbäck, nýr landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, hefur hafið störf og 30 manna úrtakshópur æfir nú undir hans stjórn fram á laugardag. KSÍ segir frá því í dag að Lars Lagerbäck hafi í gær fundað með þjálfurum og aðstoðarþjálfurum í efstu tveimur deildum karla í knattspyrnu.
Fundurinn var mjög vel sóttur en á honum fór Lars yfir sitt starf og sínar áherslur varðandi þjálfun landsliðsins. Hópur sem fer fyrstu kynni að nýja landsliðsþjálfaranum samanstendur af leikmönnum sem leika hér á landi og á Norðurlöndunum. Á laugardaginn verður svo leikinn æfingaleikur innan hópsins sem fram fer í Kórnum, kl. 15:15.
Fyrstu leikir Lars sem landsliðsþjálfara Íslands verða í febrúarmánuði en leikið verður við Japan 24. febrúar og við Svartfjallaland 29. febrúar. Báðir þessi leikir fara fram ytra.
Íslenski boltinn