Sport

ÍSÍ 100 ára í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, fagnar í dag 100 ára afmæli sínu. Afmælinu verður fagnað í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Á heimasíðu sambandsins kemur fram að sérstakur hátíðarfundur framkvæmdastjórnar verði haldinn í fundarsalnum Bárubúð í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Það var einmitt í húsinu Bárubúð, þar sem Ráðhúsið stendur í dag, þar sem sambandið var stofnað fyrir hundrað árum.

Á síðu sambandsins er rifjuð upp stofnun sambandsins:

Alls mættu 25 fulltrúar frá sjö félögum á stofnfund sambandsins en það voru fulltrúar frá Reykjavíkurfélögunum Glímufélaginu Ármanni, Íþróttafélaginu Kára, Íþróttafélagi Reykjavíkur, Knattspyrnufélaginu Fram, Knattspyrnufélagi Reykjavíkur, Umf. Reykjavíkur og Umf. Iðunni. Að auki var á fundinum lögð fram ósk frá fimm félögum í viðbót að gerast stofnfélagar sambandins. Það voru félögin Skautafélag Reykjavíkur, Sundfélagið Grettir og Akureyrarfélögin Íþróttafélagið Grettir, Glímufélagið Héðinn og Umf. Akureyrar. Axel Tulinius var kosinn fyrsti forseti ÍSÍ."

Að loknum fundinum í Bárubúð verður móttaka fyrir boðsgesti. Fjölmargir viðburðir verða á dagskrá í tilefni afmælisins á árinu.

Rætt var við Ólaf Rafnsson, formann ÍSÍ, í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Íþróttadeild Fréttablaðsins og Vísis óskar Íþrótta- og Ólympíusambandinu kærlega til hamingju með afmælið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×