Íslenski boltinn

Frakkar undirbúa sig fyrir EM í fótbolta með því að mæta Íslendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri í leik á móti Englendingum.
Samir Nasri í leik á móti Englendingum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnusambönd Íslands og Frakklands hafa komið að samkomulagi um að karlalandslið þeirra leiki vináttulandsleik 27. maí næstkomandi en leikurinn fer fram í Valenciennes og er hluti af lokaundirbúning Frakka fyrir Evrópumótið í sumar. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Ísland og Frakkland hafa mæst tíu sinnum á knattspyrnuvellinum en síðast mættust þjóðirnar í undankeppni EM árið 1999 en þá höfðu Frakkar betur, 3–2.

Íslendingar hafa aldrei farið með sigur af hólmi gegn Frökkum, þrír leikir hafa endað með jafnefli og Frakkar hafa unnið sjö sinnum. Frakkar sitja sem stendur í 15. sæti styrkleikalista FIFA.

Þessi leikur er hluti af loka undirbúningi Frakka fyrir úrslitakeppni EM sem hefst 8. júní. Frakkar leika þar í riðli með Englandi, Svíþjóð og Úkraínu og hefja leik gegn Englandi 11. júní í Donetsk.

Leikið verður á Stade du Hainut vellinum í Valenciennes en það er nýr leikvangur sem var tekinn í notkun á síðasta ári. Völlurinn tekur um 25.000 manns í sæti.

Þetta verður væntanlega þriðji leikurinn undir stjórn Svíans Lars Lagerbäck en liðið spilar við Japan og Svartfjallaland í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×