Sport

Ein skærasta skíðastjarna heims látin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sarah Burke, 29 ára gömlu skíðakona frá Kanada, lést í gær af áverkum sem hún hlaut þegar hún slasaðist á æfingu fyrir tíu dögum síðan.

Burke keppti á skíðum með frjálsri aðferð og hafði margsinnis unnið til gullverðlauna á vetrarleikunum X Games. Hún þótti einna líklegust til að vinna til verðlauna á vetrarólympíuleikunum í Sochi eftir tvö ár.

Hún hlaut alvarlega höfuðáverka þegar hún slasaðist við æfingar þann 10. janúar síðastliðinn. Hlaut hún heilaskaða og komst aldrei aftur til meðvitundar.

Burke var einna þekktust fyrir að keppa í svokallaðri ofurpípu en það er keppni í hálfpípu með fimm metra háum veggjum. Var hún við æfingar í ofurpípu þegar hún slasaðist.

Keppt verður í kvennaflokki í hálfpípu á Sochi í fyrsta sinn í sögu Ólympíuleikanna og þótti Burke líklegust til sigurs þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×