Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan – Þór Þ 80-88

Kolbeinn Tumi Daðason í Ásgarði skrifar
Hairston skoraði 23 stig og tók sextán fráköst fyrir Þór í kvöld.
Hairston skoraði 23 stig og tók sextán fráköst fyrir Þór í kvöld. Mynd/Vilhelm
Þór frá Þorlákshöfn vann átta stiga sigur, 88-80, á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. Gestirnir náðu undirtökunum strax í fyrsta leikhluta og létu forystuna aldrei af hendi.

Það var hart barist í Garðabænum í kvöld. Dómararnir leyfðu meiri snertingu en oft áður, sérstaklega framan af leik, og gengu leikmenn á lagið. Brutu hvor á öðrum í von um að komast upp með það. Eins og gengur tókst þeim misjafnlega upp.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku gestirnir frumkvæðið undir lok fyrsta leikhluta. Í stöðunni 20-20 skoruðu Þórsarar sjö stig í röð. Þar af skoraði besti maður vallarins, Darrin Govens, fimm. Blagoj Janev var sérstaklega atkvæðamikill í fjórðungnum með ellefu stig og leiddu gestirnir að honum loknum 27-21.

Þórsarar juku forskotið í 2. leikhluta og náðu mest þrettán stiga forystu 32-45. Heimamenn, með Justin Shouse í broddi fylkingar, náðu þó að laga stöðuna fyrir hálfleik. Staðan 40-49 gestunum í vil þegar leikmenn héldu til búningsherbergja.

Leikmönnum beggja liða gekk afar erfiðlega að koma boltanum ofan í körfuna í þriðja leikhluta. Ýmist skoppaði boltinn upp úr körfunni eða leikmönnum voru mislagðar hendur í góðum færum. Munurinn hélst svo til sá sami en Justin Shouse minnkaði muninn í sjö stig með þriggja stiga skoti undir lok leikhlutans, 56-65.

Heimamönnum tókst að ná muninum niður í fimm stig snemma í fjórða leikhluta en nær komust þeir ekki. Matthew Hairston setti mikilvæg þriggja stiga skot fyrir gestina sem héldu þægilegum mun út leikinn og unnu að lokum átta stiga sigur, 80-88.

Sigur gestanna frá Þorlákshöfn var sigur liðsheildarinnar. Aðeins átta leikmenn voru á skýrslu liðsins og var framlag fimm þeirra nokkuð jafnt. Matthew Hairston setti mikilvæg þriggja stiga skot en Kaninn spilaði á annarri löppinni í leiknum. Það virtist ekki koma að sök því Hairston varði auk þess fjölmörg skot heimamanna.

Hjá heimamönnum var Justin Shouse yfirburðarmaður. Keith Cothran átti afar erfitt uppdráttar í leiknum en bjargaði andlitinu með stigum í lokaleikhlutanum. Þá virðist Jovan Zdravevski enn eiga töluvert í að ná fyrri styrk eftir langa fjarveru vegna meiðsla.

Þá verður að minnast á að stemmningin hjá leikmönnum gestaliðsins virtist töluvert betri allan leiktímann. Leikmenn Stjörnunnar vældu töluvert hver í öðrum í pirringi þegar illa gekk.

Með sigrinum kemst Þór upp að hlið Stjörnunnar í deildinni með 20 stig. Stjarnan vann ellefu stiga sigur í fyrri leik liðanna í Þorlákshöfn og heldur því Þór fyrir neðan sig á innbyrðisviðureignum.

Stjarnan-Þór Þorlákshöfn 80-88 (21-27, 19-22, 16-14, 24-25)

Stjarnan: Justin Shouse 32/4 fráköst/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 20/9 fráköst, Keith Cothran 12/6 fráköst, Guðjón Lárusson 8/6 fráköst, Marvin Valdimarsson 4/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 2/4 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 2.

Þór Þorlákshöfn: Matthew James Hairston 23/16 fráköst/7 varin skot, Blagoj Janev 22/9 fráköst, Darrin Govens 20/7 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 12/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 7/4 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 4/5 stoðsendingar.

Benedikt: Hræðilega fáir Garðbæingar mættirBenedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var afar ánægður með sína menn. Sérstaklega var hann ánægður með varnarleikinn.

„Ég er búinn að vera mjög ánægður í vörnina í töluverðan tíma þó svo að ég hafi ekki verið að tala um það. Það er kannski kominn tími til að hrósa strákunum fyrir varnarleikinn."

„Við höfum fengið á okkur næstfæst stig í deildinni á eftir Grindavík. Þessir sigrar sem við höfum náð er yfirleitt vegna þess að við stöndum okkur vel varnarlega," sagði Benedikt.

Athygli vakti að aðeins átta leikmenn voru á leikskýrslu hjá gestunum í kvöld.

„Það er mikið um meiðsli og veikindi. Það sást að menn voru að spila meiddir en það kom sem betur fer ekki að sök. Menn sýndu mikið hjarta og karakter. Þeir komust til þess að berjast fyrir þessu og ég get ekki annað en hrósað þeim," sagði Benedikt en göngulag Matthew Hairston hjá Þórsurum vakti vægast sagt athygli.

„Hann var draghaltur en samt var hann að blokka skot hægri vinstri. Hann er mikill happafengur fyrir okkur en styrkir okkur fyrst og fremst varnarlega.," sagði Benedikt um Hairston sem skoraði 23 stig, tók 16 fráköst og varði sjö skot. Mögnuð frammistaða.

Undirrituðum fannst stemmningin innan liðsmanna gestanna töluvert betri en heimamanna sem virtust pirraðir. Benedikt sá hlutina í stærra samhengi.

„Ég sá að það voru fáir mættir í upphafi leiks sem mér finnst hræðilegt miðað við að Stjarnan er topplið í efstu deild. Fólk á auðvitað að mæta á alla heimaleiki."

„Mann grunar að fólk hafi haldið að það þyrfti ekki að mæta því þetta væru bara nýliðarnir Þór frá Þorlákshöfn. Það er bara ekkert þannig í deildinni. Það geta allir unnið alla sama hvaða sögu liðin í deildinni eru með," sagði Benedikt sáttur með sigurinn sem hefði þó verið enn sætari hefði leikurinn unnist með tólf stigum. Þá hefði Þór skotist upp fyrir Stjörnuna í deildinni.

„Já, við getum ekki fengið allt. Ég fer nokkuð sáttur með að hafa náð að gera atlögu að ellefu stigunum," sagði Benedikt.

Ég kláraði leikhléin fyrstu 3-4 mínúturnar í fjórða leikhluta. Ég vildi bara minna menn á að sækja á körfuna og komast á vítalínuna. Menn gleyma sér oft þegar opin skot bjóðast fyrir utan og freistast til að skjóta. Við verðum að passa þetta jafnvægi.

Teitur: Fólk er að bíða eftir úrslitakeppninni„Mér fannst þeir alltaf hitta risa þristum þegar við vorum að klóra í þá. Hairston var auðvitað stórkostlegur með sjö blokk og sextán fráköst. Að öðrum ólöstuðum átti hann þennnan leik. Hann átti nokkur þriggja stiga skot þegar skotklukkan var að renna út og drap í okkur á annarri löppinni. Það var auðvitað magnað," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, þegar hann var beðinn um ástæður þess að leikurinn tapaðist.

„Ég er aðallega svekktur vegna þess að þetta var miklu slakari leikur en gegn KR á föstudaginn. Þar voru allir tilbúnir og þann leik hefðum við tekið með smá heppni. En við áttum ekki einu sinni neina heppni skilið."

Stjörnumenn hittu illa í leiknum og var framlag Keith Cothran sérlega dapurt. Þegar langt var liðið á leik hafði aðeins eitt af tíu tveggja stiga skotum hans ratað rétta leið.

„Mér fannst eiginlega ekkert fara ofan í hjá einum né neinum nema Shouse. Nýtingin okkar í tveggja og þriggja stiga skotum var bara hörmuleg í dag. Við tökum samt 22 sóknarfráköst og miklu fleiri skot en erum ekki að setja hann í körfuna. Út á það gengur þessi leikur," sagði Teitur.

Stjörnumenn virkuðu pirraðir hvor út í annan og virtust kenna hvor öðrum um þegar illa gekk.

„Það voru margir leikmenn hjá okkur sem voru ekki á réttri hillu. Það fer oft í skapið á mönnum. En það er ekkert annað að gera en að halda áfram," sagði Teitur sem sagðist hafa passað að verja forskotið frá því í fyrri leiknum þegar ljóst var að leikurinn í kvöld væri tapaður.

Áhorfendur í Garðabænum í kvöld voru rétt rúmlega eitt hundrað og fór jafnmikið fyrir gestunum í stúkunni og heimamönnum. Teitur hefur ekki áhyggjur að það sé að fjara undan stemmningunni í Garðabænum.

„Ég held að þetta sé sama sagan á flestum völlum í deildinni. Fólk er bara að bíða eftir að úrslitakeppnin byrji."


Tengdar fréttir

Njarðvík vann Snæfell | Haukar á sigurbraut

Njarðvík og Haukar unnu góða sigra í Iceland Express-deild karla í kvöld. Haukar fylgdu þar með eftir góðum sigri á Keflavík á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×