Myndbandið við Eurovision-lagið Mundu eftir mér verður frumsýnt á vefsíðu Vodafone í dag klukkan 12. Heimildir herma að spilað verði á allan tilfinningaskalann í myndbandinu og verður gaman að fylgjast með samvinnu söngvaranna tveggja, Gretu Salóme og Jónsa. Mikil spenna ríkir einnig yfir því hvort lagið verði sungið á íslensku eða ensku og hvernig lagið verður útsett.
Upptökur fóru meðal annars fram á Reykjanesinu, hjá Krísuvík og við Kleifarvatn og var lagður mikill metnaður í verkefnið. Hannes Þór Halldórsson annaðist leikstjórn og framleiðandi var Saga Film. -fb

