Fótbolti

Manchester United úr leik í Evrópudeildinni - tapaði 1-2 á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Manchester United er úr leik í Evrópudeildinni efrir 1-2 tap á móti spænska liðinu Athletic Bilbao í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum keppninnar en Athletic Bilbao vann fyrri leikinn 3-2 á Old Trafford og því 5-3 samanlagt.

Manchester United er þar með búið að tapa þremur Evrópuleikjum í röð og alls fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Líkt og í fyrri leiknum í Manchester í síðustu viku þá vann Athletic Bilbao sannfærandi sigur í kvöld.

Fernando Llorente kom Athletic Bilbao í 1-0 á 23. mínútu með frábæru viðstöðulausu skoti eftir langa sendingu frá Fernando Amorebieta. Markið hafði ekki mikinn aðdrganda en Bilbao voru búnir að byrja miklu betur og Iker Muniain átti meðal annars skot í stöng á 14. mínútu.

Llorente þurfti að yfirgefa völlinn strax á 39. mínútu vegna meiðsla og þrátt fyrir aukinn sóknarþunga þá náðu leikmenn Manchester United ekki að jafna leikinn fyrir hálfleik.

Andoni Iraola fékk frábært tækifæri til að koma Bilbao tveimur mörkum yfir á 55. mínútu eftir að hafa fíflað alla United-vörnina en skot hans fór framhjá. Bilbao var með öll völd á vellinum og Oscar De Marcos gerði endanlega út um þetta með því að koma sínu liði í 2-0 á 65. mínútu.

Wayne Rooney minnkaði muninn á 80. mínútu með frábæru langskoti upp í bláhornið en markið kom of seint og enn eitt Evróputapið hjá United því staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×