Körfubolti

Snæfell lagði Njarðvík í spennuleik í Hólminum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hildur Sigurðardóttir skoraði 19 stig og tók fjögur fráköst í sigri Snæfellinga.
Hildur Sigurðardóttir skoraði 19 stig og tók fjögur fráköst í sigri Snæfellinga. Mynd / Valli
Snæfellskonur jöfnuðu metin í viðureign sinni gegn Njarðvík í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í Hólminum í kvöld. Heimakonur unnu tveggja stiga sigur, 85-83, í miklum spennuleik.

Leikurinn í kvöld var jafn frá upphafi til enda. Gestirnir úr Njarðvík leiddu með þremur stigum í leikhléi 43-40 og að loknum þriðja leikhluta var allt í járnum, 59-59.

Lokamínútan var æsispennandi. Kireaah Marlow kom heimakonum stigi yfir 79-78 þegar mínúta lifði leiks en Ólöf Helga Pálsdóttir svaraði með sniðskoti á hinum endanum og gestirnir stigi yfir.

Þegar 18 sekúndur voru eftir var brotið á Hildi Sigurðardóttur í skoti fyrir utan þriggja stiga línuna. Reynsluboltinn setti tvö skot ofan í og Snæfellingar stigi yfir, 81-80.

Shanae Baker-Brice brást bogalistin á hinum endanum og Kierah Marlow skoraði úr báðum vítaskotunum. Jordan Murphree bætti við tveimur stigum af vítalínunni áður en Baker-Brice minnkaði muninn í 85-83 með þriggja stiga skoti í þann mund sem leiktíminn rann út.

Liðin hafa nú unnið hvort sinn leikinn og mætast þriðja sinni í Ljónagryfjunni í Njarðvík á þriðjudagskvöld.

TölfræðiSnæfell-Njarðvík 85-83 (20-19, 20-24, 19-16, 26-24)

Snæfell: Kieraah Marlow 28/6 fráköst, Jordan Lee Murphree 22/9 fráköst/6 stoðsendingar, Hildur Sigurdardottir 19/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 9, Hildur Björg Kjartansdóttir 4/6 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 3/4 fráköst.

Njarðvík: Shanae Baker-Brice 33/4 fráköst, Lele Hardy 14/20 fráköst/5 stolnir, Petrúnella Skúladóttir 14, Salbjörg Sævarsdóttir 10, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 7/6 fráköst, Ína María Einarsdóttir 3, Ólöf Helga Pálsdóttir 2/5 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×