Körfubolti

Vinnur Njarðvík sjötta sigurinn í röð á Snæfelli? | Úrslitakeppni kvenna hefst í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shanae Baker-Brice fagnar með félögum sínum eftir bikarúrslitaleikinn.
Shanae Baker-Brice fagnar með félögum sínum eftir bikarúrslitaleikinn. Mynd/Valli
Úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna í körfubolta hefst í kvöld þegar undanúrslitaeinvígi Njarðvíkur og Snæfells fer af stað í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Það lið sem vinnur fyrr þrjá leiki tryggir sér sæti í úrslitaeinvíginu um íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 en liðið mætast síðan á sunnudaginn í Hólminum.

Það er óhætt að segja að Njarðvíkurliðið sé með tak á Snæfelli því Njarðvík hefur unnið alla fimm leiki liðanna á þessu tímabili þar á meðal bikarúrslitaleikinn í febrúar þar sem kvennalið Njarðvíkur vann sinn fyrsta stóra titil.

Njarðvík komst alla leið í úrslitaeinvígið í fyrra þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík 3-0. Snæfellskonur hafa verið með í úrslitakeppninni undanfarin tvö ár en eiga enn eftir að vinna sinn fyrsta leik í úrslitakeppni.

Snæfellsliðið hefur ráðið illa við hana eldfljótu Shanae Baker-Brice sem skoraði 30,7 stig að meðaltali á móti þeim í deildinni og var ennfremur kosin besti leikmaðurinn í bikarúrslitaleiknum þar sem Baker-Brice var með 35 stig, 16 fráköst, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Baker-Brice var samt ekki með í síðasta leik vegna meiðsla en samt sem áður vann Njarðvík hann með fimm stigum, 97-92. Lele Hardy tók upp hanskann fyrir löndu sína og var með 49 stig, 21 frákast og 8 stoðsendingar í þeim leik.

Leikir Njarðvíkur og Snæfells í vetur:

5. nóvember í Njarðvík - Njarðvík vann 90-80

6. desember í Stykkishólmi - Njarðvík vann 72-69

28. janúar í Stykkishólmi - Njarðvík vann 84-60

18. febrúar í Laugardalshöll (bikarúrslit) - Njarðvík vann 84-77

7. mars í Njarðvík - Njarðvík vann 97-92




Fleiri fréttir

Sjá meira


×