Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Keflavík 95-87 | Stjarnan er 1-0 yfir

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Stjarnan og Keflavík léku í kvöld fyrsta leik sinn í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslit. Stjarnan hafði betur og þarf einn sigur til viðbótar til þess að komast í undanúrslit. Lokatölur, 95-87.

Leikmenn Stjörnunnar og Keflavíkur sýndu oft á tíðum frábær tilþrif og skemmtu fjölmörgum áhorfendum sem mættu í Ásgarð í Garðabæ. Jafnt var nánast á öllum tölum þar til að Stjörnumenn náðu yfirhöndinni á síðustu fjórum mínútum leiksins. Staðan var 45-45 í hálfleik og en var jafnt þegar þriðji leikhluti var búinn, 69-69.

Mestu munaði um að Justin Shouse tók af skarið þegar mest á reyndi og Jovan Zdravevski vaknaði loksins til lífsins eftir frekar dapra innkomu í fyrri hálfleik. Marvin Valdimarsson var einn besti leikmaður Stjörnunnar í gær en hann skoraði 22 stig og var með frábæra skotnýtingu, 9 af 12 í tveggja stiga skotunum. Keflvíkingar eiga í vandræðum með að finna varnaramann sem hentar gegn skotbakverðinum sem er um tveir metrar á hæð og getur brugðið sér undir körfuna ef því er að skipta. Valur Orri Valsson, 18 ára leikstjórnandi úr liði Keflavíkur átti í töluverðum vandræðum gegn Marvini í þeim tilvikum.

Keflvíkingar nýttu sér styrk Jarryd Cole undir körfunni, en hann skoraði alls 27 stig og tók 11 fráköst. Um tíma réðu leikmenn Stjörnunnar ekkert við hann. Á lokakafla leiksins gerðu leikmenn Keflvíkinga þau mistök að leita ekki nógu mikið að Cole undir körfunni og tóku þess í stað léleg þriggja stiga skot. „Ég á sök á því, og við hefðum ekki átt að spila úr þessu með þeim hætti," sagði Magnús Gunnarsson leikmaður Keflavíkur en hann skoraði alls 18 stig í leiknum og þar af fjórar þriggja stiga körfur úr 12 tilraunum.

Stjarnan sýndi mikla seiglu á lokakaflanum gegn Keflvíkingum þar sem að Justin Shouse tók leikinn í sínar hendur . „Hann var besti leikmaður vallarins," sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar í leikslok. Á síðustu fjórum mínútum leiksins var Shouse eins og herforingi. Skoraði þegar þar átti við og fann liðsfélaga sína í opnum færum. Shouse hafði hægt um sig í byrjun leiksins í sókninni en hann sótti í sig veðrið hægt og bítandi.

„Keflavík er á réttri leið með sitt lið og þeir gerðu mér erfitt fyrir að skora í upphafi leiksins. Mitt hlutverk er að hugsa um liðsfélaga mína og síðan um sjálfan mig hvað varðar stigaskorunina," sagði Justin Shouse leikmaður Stjörnunnar en hann skoraði 16 stig og gaf 16 stoðsendingar í leiknum. Marvin var að fá fær og Keith líka. Ef þeir eru heitir þá leitum við að þeim. Jovan hitnaði í síðari hálfleik og hann fékk þá boltann. Undir lok leiksins fékk ég tækifæri til þess að skjóta eða gefa á aðra, og þannig er það alltaf hjá leikstjórnandum," sagði Justin.

Viðtalið við Justin má skoða í heild sinni hér:

Valur Orri byrjaði leikinn gríðarlega vel en hann hætti síðan að hitta og 8 þriggja stiga tilraunir fóru ekki rétta leið eftir að tvær fyrstu fóru ofaní. Valur sýndi að það er mikið spunnið í hann sem leikmann undir lok leiksins þegar hann setti þriggja stiga skot ofaní þegar mest á reyndi, og staðan var þá 88-86 fyrir Stjörnuna og aðeins 56 sekúndur eftir.

Justin svaraði með þriggja stiga körfu i næstu sókn og breytti stöðunni í 91-86. Lokakaflin var því frekar einfaldur fyrir Stjörnuna sem fóru á vítalínuna í hvert sinn sem Keflvíkingar brutu á þeim.

Það er ljóst að þessi rimma Stjörnunnar og Keflavíkur verður bráðskemmtileg og spennandi. Keflvíkingar voru ekki langt frá því að stela heimaleikjaréttinum. Rangar ákvarðanir þeirra í sókninni reyndust dýru verði keyptar. Þar hefði hinn stóri og stæðilegi Cole átt að fá boltann í hverri einustu sókn.

Stjarnan er með flott lið sem margir hafa spáð titlinum í ár. Liðið er vel mannað og illviðráðanlegt þegar heili liðsins – Justin Shouse nær sér á strik, líkt og hann gerði í kvöld.

Blaðamaður Vísis og Fréttablaðsins var með textalýsingu frá leiknum.

Leik lokið: Stjarnan sigraði 95-87.

Stjarnan-Keflavík 95-87 (22-25, 23-20, 24-24, 26-18)

Stjarnan
: Keith Cothran 25/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 22, Justin Shouse 16/16 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 12, Sigurjón Örn Lárusson 8/4 fráköst, Renato Lindmets 7/10 fráköst, Fannar Freyr Helgason 3, Dagur Kár Jónsson 2.

Keflavík: Jarryd Cole 27/11 fráköst, Charles Michael Parker 19/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 18/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 12, Almar Stefán Guðbrandsson 7/5 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 4/4 fráköst.

39. mín: Staðan er 91-87 fyrir Stjörnunar og aðeins 29 sekúndur eftir. Stjarnan á boltann en Keflavík tók leikhlé. Halldór Halldórsson var á vítalínunni og skoraði aðeins úr öðru skotinu fyrir Keflavík.

39. mín: Staðan er 91-86 fyrir Stjörnuna. Magnaður leikkafli þar sem að bæði lið hafa hitt vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

38: mín: Staðan er 86-83 fyrir Stjörnuna.

37. mín: Staðan er 81-78 fyrir Stjörnunar og Keflavík tekur leikhlé. Keflavík var að missa boltann klaufalega. Justin skoraði síðustu stig heimamanna og það er meðbyr hjá þeim. Cole er með 27 stig fyrir Keflavík og Marvin 22 fyrir Stjörnuna.

36. mín: Staðan er 79-78 fyrir Stjörnuna.

35. mín: Staðan er 76-75 fyrir Keflavík. Jovan var að skora þrist fyrir Stjörnuna.

33. mín: Staðan er 74-71 fyrir Keflavík. Stjarnan er í ströggla í sóknarleiknum. Finna ekki leið að körfunni. Kannski er vörnin of sterk fyrir þá? Cole er með 25 stig fyrir Keflavík en Cothran er með 20 fyrir Stjörnuna.

32 mín: Staðan er 71-71. Baráttan heldur áfram.

30. mín: Staðan er 69-69. J: Cole er aðalmaðurinn í liði Keflavíkur og skoraði hann 10 stig í þessum leikhluta og er alls með 23 stig. Stjörnumenn náðu fínum kafla og komust yfir á ný, 67-65. Það má búast við gríðarlegri spennu í fjórða og síðasta leikhlutanum.

28. mín: Staðan er 67-65 fyrir Stjörnuna. Heimamenn í miklum ham og hafa snúið leiknum sér í hag. Keflvíkingar taka leikhlé.

27. mín: Staðan er 65-59. Stjörnumenn ráða ekkert við Cole í teignum. Hann er með 21 stig.

26. mín: Staðan er 63-56. Magnús Gunnarsson er aftur á vítalínunni og fær þrjú vitaskot. Og hittir úr þeim öllum.

25. mín: Staðan er 58-52 fyrir Keflavík. Stjörnumenn eru klaufar í varnarleiknum og brjóta illa af sér. Parker er sjóðheitur í skotunum sínum hjá Keflavík og er hann með 14 stig. Cothran er með 18 stig fyrir Stjörnuna.

24. mín: Staðan er 53-50 fyrir Keflavík. Jovan var að skora fyrstu þrjú stig sín í leiknum.

21. mín: Staðan er 51-45 fyrir Keflavík. Magnús Gunnarsson opnar leikinn með þriggja stiga körfu og Parker bætti við annarri.

21. mín: Síðari hálfleikur er byrjaður.

20. mín: Staðan í hálfleik er 45-45. Fínn leikur í gangi og bæði lið leika af krafti. Jarryd Cole og Charles Parker eru stigahæstir í liði Keflavíkur með 13 og 11 stig. Valur Orri Valsson er með 9 stig. Keith Cothran er með 16 stig fyrir Stjörnuna en Keflavík á í basli með að finna rétta varnarmanninn gegn þessum snögga skotbakverði. Marvin Valdimarsson er með 11 stig og Justin Shouse er með 7 stoðsendingar en aðeins 4 stig fyrir Stjörnuna.

18. mín: Staðan er 45-45. Keith Cothran var að bjóða upp á tilþrif. Þvílík troðsla eftir sendingu frá Lindmets. Áhorfendur kunna vel að meta þetta.

17. mín: Staðan er 44-42 fyrir Keflavík. Magnús kann vel við glerið í Garðabæ og var að dúndra öðrum þrist í spjaldið og ofaní. Hann hljóp til baka alveg eins og hann hafi ætlað að gera þetta. Glætan en flott tilþrif.

16. mín: Staðan er 38-37 fyrir Stjörnuna. Magnús Gunnarsson var að skora sín fyrstu stig fyrir Keflavík. Spjaldið og ofaní og þriggja stiga skot að sjálfsögðu. Maggi sagði ekki "spjaldið" en honum er líklega alveg sama.

14. mín: Staðan er 35 - 34 fyrir Stjörnuna. Jovan Zdravevski leikmaður Stjörnunnar er búinn að fá 3 villur á þeim stutta tíma sem hann hefur verið inni á vellinum. Langt frá sínu besta en hann er með 0 stig.

13. mín: Staðan er 31-28 fyrir Keflavík. Aðeins farið að hitna i kolunum inni á vellinum en áhorfendur í Garðabæ eru frekar rólegir.

12. mín: Staðan er 29-25. Magnús Gunnarsson er enn ekki búinn að skora fyrir Keflavík og Justin Shouse á einnig eftir að skora fyrir Stjörnuna. Frekar óvenjulegt að þeir skuli ekki vera komnir á blað um miðjan fyrri hálfleik.

10. mín. Fyrsta leikhluta er lokið og Keflavík er yfir 25-22. Charles Parker skoraði síðustu stig fyrsta leikhluta með þriggja stiga skoti fyrir Keflavík. Hann hafði frekar hægt um sig og skoraði aðeins 5 stig í fyrsta leikhluta. Marvin Valdimarsson er stighæstur í liði Stjörnunnar með 11 stig. Valur Orri Valsson, 18 ára pjakkur í liði Keflavíkur er með 7 stig fyrir Keflavík.

8. mín: Cole með fyrstu troðslu leiksins eftir frábæra sendingu frá Magnúsi. Staðan er 22-18 fyrir Keflavík.

7. mín: Sigurður Ingimdundarson er búinn að fá nóg og tekur leikhlé. Vörn Keflvíkinga er slök.

7. mín: Keflvíkingar ráða ekkert við Marvin sem var að jafna metin, 16-16. Valur Orri lendir í því að dekka hann hvað eftir annað undir körfunni og það er Marvin að nýta sér vel.

6.mín: Marvin er að hitna og hefur hann skorað 7 stig í röð fyrir Stjörnuna. Staðan er 16-14 fyrir Keflavík.

5. mín: Marvin Valdimarsson skorar sín fyrstu stig fyrir Stjörnuna og fær vítaskot að auki. Staðan er 16-10 fyrir Keflavík.

4. mín: Magnús Gunnarsson var að reyna þriggja stiga skot nánast úr miðjuhringnum. Hitti ekki en skemmtileg tilþrif. Staðan er 14-7 fyrir Keflavík.

3. mín: Kraftur í gestunum sem eru 14-5 yfir. Sóknarleikur Stjörnunnar er ömurlegur.

2. mín: Keflavík er 7-3 yfir og heimamenn virka ekki sannfærandi.

1. mín: Valur Orri opnar leikinn með þriggja stiga körfu fyrir Keflavík og Fannar Helgason jafnar með þristi fyrir heimamenn.

Byrjunarlið Keflavíkur: Almar, Valur Orri, Parker, Magnús og Cole.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Shouse, Marvin, Fannar, Cothran og Lindmets.

Fyrir leik: Kjartan Kjartanson, þjálfari og leikmaður 1. deildarliðs FSu er kynnir leiksins.

Fyrir leik: Það er alveg nóg pláss á áhorfendabekkjunum, en það er aðeins að fjölga og trommararnir mættir. Hver hleypti þeim inn?

Fyrir leik: Sigmundur Már Herbertsson og Eggert Þór Aðalsteinsson eru dómarar leiksins. Sigmundur er aðeins hærri en Eggert en það munar ekki miklu á þeim.

Fyrir leik: Jón Bender er eftirlitsmaður leiksins, gamli hótelstjórinn úr Borgarnesi og einnig fyrrum Pósthússtjóri á Reyðarfirði. Toppaðu það.

Fyrir leik: Arnar Freyr Jónsson leikstjórnandi Keflvíkinga er ekki með í þessum leik og hann verður að sætta sig við að horfa á þetta einvígi. Arnar meiddist á hné á æfingu liðsins og verður hann að taka sér frí frá æfingum í tvær vikur. Arnar sagði við Vísi að hann vonaðist bara til þess að geta tekið þátt í undanúrslitunum.

Fyrir leik: Það eru 20 mínútur þar til að leikurinn hefst. AC/DC í græjunum og áhorfendur að týnast inn í salinn. Bæði lið hita upp af krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×