Körfubolti

Grindvíkingar vilja ganga frá þjálfaramálum sínum sem fyrst

Helgi Jónas er hættur með Grindavík.
Helgi Jónas er hættur með Grindavík.
"Ég vissi það ekki fyrr en á mánudagskvöldið að Helgi ætlaði sér að hætta. Þá hringdi hann í mig og bað um fund. Mig grunaði strax um hvað sá fundur ætti að vera," sagði Magnús Andri Hjaltason, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, en Grindvíkingar eru þjálfaralausir þar sem Helgi Jónas Guðfinnsson er hættur.

Helgi Jónas hætti vegna mikilli anna í eigin vinnu og hann treysti sér ekki til þess að sinna báðum störfum lengur af fullum krafti.

"Það er brjálað að gera hjá honum í vinnunni og við skiljum hann vel. Þetta er allt í mesta bróðerni hjá okkur."

Áður en Grindvíkingar réðu Helga Jónas á sínum tíma þá horfðu þeir mikið til Bandaríkjanna. Þá var einfaldlega of dýrt að ráða Bandaríkjamann og er það enn að sögn formannsins. Magnús segist ekki einu sinni geta fengið Íslandsvin eins og Nick Bradford til þess að semja á íslenskum taxta.

"Hann er peningamaður og yrði of dýr fyrir okkur líka."

Grindvíkingar eru því að skoða íslenska markaðinn og þeir útiloka ekki að ráða aftur reynslulausan þjálfara líkt og Helgi Jónas var er hann var ráðinn.

"Nýi þjálfarinn þarf fyrst og fremst að vera góður maður. Ef einhver reynslulaus og spennandi maður er í sigtinu þá skoðum við það með opnum huga. Við munum reyna að vinna þetta mál eins fljótt og við getum," sagði Magnús Andri sem á ekki von á öðru en að halda öllum Íslendingunum en óvissa er hvort hann haldi sömu útlendingum.

"Það er auðvitað draumurinn en Bullock hefur hækkað mikið í verði eftir þetta tímabil. Ég yrði hissa ef hann fer ekki að spila einhvers staðar í Evrópu. Hann er einfaldlega það góður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×