Sport

Lochte vann Phelps í 400 metra fjórsundi - keppa báðir í greininni á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Lochte og Michael Phelps.
Ryan Lochte og Michael Phelps. Mynd/AP
Ryan Lochte hafði betur á móti Michael Phelps í fyrsta einvígi kappanna á úrtökumóti bandaríska Ólympíuliðsins í sundi sem fram fara þessa dagana í Omaha í Nebraska. Það þykir fréttnæmt þegar Phelps tapar sundi en hann er að koma til baka eftir að hafa dottið í ljúfa lífið eftir að hafa unnið átta gull á Ólympíuleikunum í Peking fyrir fjórum árum.

Lochte kom í mark á 4 mínútum, 7 sekúndum og 6 hundraðshlutum eða 83 hundraðshlutum á undan Phelps. Þeir urðu á undan Tyler Clary sem varð þriðji. Allir þessir keppa fyrir hönd Bandaríkjamanna í þessari grein á leikunum í London.

Michael Phelps var að synda 400 metra fjórsundið í fyrsta sinn síðan að hann vann greinina á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Ryan Lochte er búinn að vinna hana á síðustu tveimur heimsmeistaramótum en fékk bronsið í Peking. Phelps vann 400 metra fjórsundið líka á ÓL í Aþenu 2004 en heimsmet hans frá því í Peking stendur enn.

Þeir Lochte og Phelps eiga eftir að mætast tvisvar sinnum aftur á úrtökumótinu eða í 200 metra skriðsundi á morgun og í 200 metra fjórsundi á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×